56 almennir borgarar látist

Reykur liggur yfir Kartúm á sunnudagsmorgni eftir rúmlega sólarhringsátök milli …
Reykur liggur yfir Kartúm á sunnudagsmorgni eftir rúmlega sólarhringsátök milli hers Súdans og uppreisnarher RSF. AFP

Að minnsta kosti 56 almennir borgarar hafa látist í átökum í Kartúm, höfuðborg Súdan, um helgina í blóðugum átökum milli hers landsins og RSF-uppreisnarhersins. Talið er að um 600 hafi særst.

Átökin hófust snemma á laugardagsmorgun og hefur fjöldi sprenginga orðið í borginni. Vopnað herlið hefur tekist á úti á götum borgarinnar. Árásarþotur fljúga yfir borgina og skriðdrekar fara um göturnar. 

Her landsins er stjórnað af Abdel Fattah al-Burhan en uppreisnarhernum af hans næstráðanda Mohamed Hamdan Daglo. Saman stóðu þeir að valdaráninu árið 2021 og hafa stjórnað landinu saman síðan þá. Kastaðist í kekki milli þeirra vegna fyrirhugaðrar sameiningar heraflans. 

Al-Burhan og Daglo hafa báðir sagt að mikilvæg svæði borgarinnar séu á þeirra valdi en báðir segjast þeir hafa völd yfir eina og sama flugvellinum. Þá segist uppreisnarherinn hafa stjórn á forsetahöllinni. 

Abdel Fattah al-Burhan og Mohamed Hamdan Daglo hafa tekist á …
Abdel Fattah al-Burhan og Mohamed Hamdan Daglo hafa tekist á undanfarnar vikur og mánuði. AFP

Nóttin erfið 

„Nóttin var mjög erfið og við gátum ekki sofið vegna sprenginga og skothríðar,“ sagði Ahmed Seif, sem býr í austurhluta Kartúm ásamt konu sinni og þremur börnum. 

Hann óttast að skotið hafi verið á hús sem hann býr í, en sagði við AFP-fréttastofuna að hann hætti sér ekki út til að athuga. 

„Við höfum miklar áhyggjur af ástandinu og það virðist ekkert ætla að róast á næstunni,“ bætti hann við.

Átökin hafa breiðst út frá höfuðborginni, þar á meðal til Darfur-héraðs, þar sem ástand var þegar óstöðugt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert