Kona sem ásakaði Biden sækir um rússneskan ríkisborgararétt

Reade sakaði Biden um að hafa brotið gegn sér þegar …
Reade sakaði Biden um að hafa brotið gegn sér þegar hún var 29 ára. Samsett mynd

Tara Reade, bandarísk kona sem sakaði Joe Biden Bandaríkjaforseta um að beita sig kynferðislegu ofbeldi, ferðaðist til Moskvu og sækist nú eftir rússneskum ríkisborgararétti.

Í samtali við rússneskan ríkismiðil sagði Reade að hún upplifði sig örugga í landinu og vildi vera þar áfram. BBC greinir frá.

Reade hefur sakað Biden um að hafa brotið á sér kynferðislega þegar hún vann fyrir hann er hann var öldungadeildarþingmaður fyrir Delaware. Biden hefur afdráttarlaust vísað ásökunum á bug.

29 ára þegar meint brot átti sér stað

Málið var fyrst til umfjöllunar árið 2020 þegar Biden var í forsetaframboði. 

Hefur Reade haldið því fram að Biden hafi brotið gegn sér á göngum þinghússins þegar hún var 29 ára að aldri. Sagði hún Biden hafa þvingað sig upp við vegg og káfað á sér.

Upplifir öryggi í Moskvu

„Þegar ég steig út úr flugvélinni í Moskvu þá leið mér eins og ég væri örugg í fyrsta skiptið í langan tíma. Mér leið eins og hlustað væri á mig og fólk bæri virðingu fyrir mér,“ sagði Reade í samtali við rússneskan miðil.

Hún kvaðst hafa yfirgefið Bandaríkin eftir að þingmaður Repúblikanaflokksins upplýsti hana um að hún væri í hættu.

„Ég vil sækja um rússneskan ríkisborgararétt,“ sagði Reade sem kvaðst jafnframt mundu verða „góður ríkisborgari“. Hún vildi þó ekki gefa bandaríska ríkisborgararéttinn upp á bátinn.

Reade er ein af nokkrum konum sem hafa stigið fram og sakað Biden um óviðeigandi snertingu, faðmlög og kossa. Hún segist hafa lagt fram kvörtun en engin gögn hafa fundist sem staðfesta það. Ekki liggur fyrir hvort ásökun hennar hafi verið formlega rannsökuð á sínum tíma eður ei.

Talsmaður Bidens hefur sagt að forsetinn trúi konum og að hann telji að þær eigi rétt á því að segja sína sögu. Aftur á móti hafi þetta atvik ekki gerst.

mbl.is