Minnst 200 manns sagðir látnir á Gasa

Myndin er sögð tekin í kjölfar sprengingarinnar á sjúkrahúsinu í …
Myndin er sögð tekin í kjölfar sprengingarinnar á sjúkrahúsinu í kvöld, og sýnir hún Palestínumenn virða fyrir sér lík sumra þeirra sem fórust í sprengingunni. AFP/Dawood Nemer

Áætlað er að minnst 200 manns hafi farist á Gasasvæðinu þegar sprenging varð á Al Ahli sjúkrahúsinu þar nú fyrir stundu. Hamas-samtökin hafa sakað Ísraelsher um að hafa ráðist á sjúkrahúsið, en Ísraelsher hefur ekki komið fram með yfirlýsingu um málið. 

Í fréttum breska ríkisútvarpsins BBC sagði fyrst að minnst 500 manns hefðu farist í sprengingunni á sjúkrahúsinu, og var haft eftir forsvarsmanni heilbrigðisráðuneytisins á Gasasvæðinu að hún hefði orðið eftir loftárás Ísraelsmanna. Ekki var þó hægt að staðfesta þær fullyrðingar, en ráðuneytið er undir stjórn hryðjuverkasamtakanna Hamas.

Fjölmiðlaskrifstofa Hamas-samtakanna sendi frá sér í kvöld segir að samtökin líti á árásina sem stríðsglæp. „Sjúkrahúsið hýsti hundruð veika og særða einstaklinga sem neyddust til þess að flýja heimili sín,“ segir í tilkynningunni. Þar sagði einnig að fleiri hundruð fórnarlömb sitji enn föst undir rústum sjúkrahússins. 

Rannsaka hvort Ísraelsher hafi sprengt sjúkrahúsið

Daniel Hagari, talsmaður Ísraelshers, sagði að málið yrði rannsakað, og vildi ekki staðfesta að herinn hefði gert loftárás á sjúkrahúsið.

Á twitter-síðunni Israeli War Room segir hins vegar að svo virðist sem að sprengingin hafi orðið af völdum eldflaugaárásar Hamas-liða, en aðstandendur síðunnar segja að Ísraelsher hafi ekki verið með flugvélar á lofti yfir Gasa-svæðinu á þeim tíma sem sprengingin varð, en að hún hafi orðið skömmu eftir að Hamas-liðar hófu að skjóta fjölda eldflauga á suðurhluta Ísraels. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka