Sendiherra Tyrklands yfirgefur Ísrael

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir Netanjahú vera fyrst og …
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir Netanjahú vera fyrst og fremst ábyrgan fyrir mannfallinu á Gasasvæðinu. AFP/Adem Altan

Tyrkland hefur tilkynnt að sendiherra landsins í Ísrael verði kallaður heim. Enn fremur stendur til að hætta öllum samskiptum við forsætisráðherrann Benjamín Netanjahú.

Er þetta gert í mótmælaskyni við þeim blóðugu átökum sem geisa á Gasasvæðinu.

Utanríkisráðuneyti Tyrklands hefur sagt að sendiherra þeirra verði kallaður heim í ljósi mannúðarneyðarinnar sem ríkir á Gasaströndinni og það sem ráðuneytið segir að séu áframhaldandi árásir Ísraelshers á almenna borgara.

Netanjahú fyrst og fremst ábyrgur

Fulltrúi frá ísraelska utanríkisráðuneytinu hefur ásakað Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, um að halda með hryðjuverkasamtökum.

Forsetinn heldur því fram að hann telji Netanjahú sjálfan vera fyrst og fremst ábyrgan fyrir mannfallinu á Gasa. Hann segir ekki lengur tækt að halda uppi samskiptum við forsætisráðherrann ísraelska.

„Við höfum afskrifað hann,“ segir Erdogan.

Ísrael hafði áður kallað alla erindreka sína út úr Tyrklandi og öðrum nærliggjandi löndum af öryggisástæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert