Andlát: Oddur Björnsson

Oddur Björnsson.
Oddur Björnsson.

Oddur Björnsson, rithöfundur og leikskáld, er látinn. Hann varð 79 ára. Oddur er höfundur fjölda leikverka sem sýnd hafa verið í leikhúsum, í útvarpi og sjónvarpi.

Hann hlaut heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands á Grímunni fyrr á þessu ári fyrir framúrskarandi ævistarf í þágu leiklistar.

Oddur fæddist 25. október 1932 í Ásum í Skaftártungu. Foreldrar hans voru Guðríður Vigfúsdóttir húsmóðir og Björn Oddsson Björnsson prestur.

Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri nam Oddur leikhúsfræði við Háskólann í Vínarborg 1954-1956. Hann starfaði sem bókavörður við Borgarbókasafn Reykjavíkur og kennari við Iðnskólann í Reykjavík. Þá var hann leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar 1978-1980. Oddur hefur jafnframt starfað sem rithöfundur og við leikhús, meðal annars sem leikstjóri við Þjóðleikhúsið, Leikfélag Akureyrar og Ríkisútvarpið. Þá var hann um skeið leikhúsgagnrýnandi.

Hann er höfundur fjölda leikrita fyrir leiksvið, útvarp og sjónvarp og hafa mörg þeirra einnig verið gefin út á bók. Meðal leikrita má nefna Hornkóralinn sem sýndur var í Þjóðleikhúsinu 1967 og 13. krossferðina sem sýnd var í Þjóðleikhúsinu 1993. Af útvarpsleikritum má nefna Kirkjuferðina frá 1966, Brúðkaup furstans af Fernara frá árinu 1970 og Skemmtigöngu frá 1973. Þá eru eftir Odd sjónvarpsleikritin Postulín frá árinu 1971 og Draugasaga frá 1985.

Eftirlifandi eiginkona Odds er Bergljót Gunnarsdóttir glerlistamaður.

Börn hans eru Hilmar kvikmyndagerðarmaður og Elísabet Álfheiður píanóleikari.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka