Birkir neitar sök

Birkir Kristinsson við fyrirtökuna í morgun.
Birkir Kristinsson við fyrirtökuna í morgun. mbl.is/Rósa Braga

Birkir Kristinsson, fyrrverandi starfsmaður Glitnis, neitaði sök er fyrirtaka fór fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sérstaks saksóknara sem hefur ákært fjóra fyrirverandi starfsmenn Glitnis vegna 3,8 milljarða króna lánveitingar bankans til félagsins BK-44. Birkir var sá eini sem átti eftir að taka afstöðu til ákærunnar.

Ólafur Eiríksson, lögmaður Birkis, segir að fyrirtakan í dag hafi snúist um að fá fram formlega afstöðu Birkis. Við þingfestingu málsins í september neituðu þrír sakborninga sök á meðan Birkir lagði fram kröfu um frávísun og fór fram á að fyrst yrði leyst úr þeirri kröfu, þ.e. áður en hann tæki afstöðu til sakarefnisins.

Niðurstaða lá fyrir í lok október er héraðsdómur hafnaði frávísunarkröfunni. Úrskurðurinn var ekki kæranlegur. 

„Fyrirtakan í dag var eingöngu fyrir hann til þess að geta neitað sök,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Næsta fyrirtaka verður 31. janúar nk. og þá munu lögmenn skila greinargerðum. Aðspurður vonast Ólafur til að aðalmeðferð í málinu hefjist sem fyrst; vonandi ekkert mikið seinna en á vormánuðum. 

Auk Birkis, sem var sem var starfsmaður einkabankaþjónustu Glitnis, eru þeir Jóhannes Baldursson, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, Elmar Svavarsson, sem var verðbréfamiðlari, og Magnús Arnar Arngrímsson, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, ákærðir.

Ákæran kemur til vegna 3,8 milljarða lánveitingar bankans til félagsins BK-44 í nóvember 2007. Félagið var í eigu Birkis og eru Jóhannes, Magnús og Elmar ákærðir fyrir umboðssvik með því að veita félaginu lánið sem notað var til að kaupa bréf í Glitni. Bankinn keypti svo bréfin aftur af BK-44 á árinu 2008 og segir sérstakur saksóknari að það hafi verið á yfirverði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert