Þeir veikustu „reknir út á gaddinn“

Guðmundur Ingi Þóroddson, formaður Afstöðu.
Guðmundur Ingi Þóroddson, formaður Afstöðu. mbl.is/​Hari

Stjórn Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, tekur heilshugar undir yfirlýsingu stjórnar Sálfræðingafélags Íslands þar sem aðgerðir framkvæmdastjórnar SÁÁ gegn sálfræðingum eru harmaðar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu, þar sem það hvetur meðlimi framkvæmdastjórnar SÁÁ í heild sinni til íhuga stöðu sína vandlega „enda löngu kominn tími á jákvæða þróun hjá annars stöðnuðum samtökum“.

„Samtökin hafa meðal annars hætt meðferðum fyrir fanga eftir gagnlegt áratuga starf og voru því veikustu einstaklingarnir reknir út á gaddinn. Fyrirsvarsmenn SÁÁ hafa ekki verið til viðtals um endurskoðun þessa og telur Afstaða ljóst að heillavænlegast væri ef nýtt fólk kæmi til starfa í stjórninni á faglegum forsendum,“ segir í tilkynningunni.

Þar tekur Afstaða einnig undir áskorun stjórnar Sálfræðingafélagsins um endurskoðun ákvörðun þeirrar að segja upp sálfræðingum samtakanna og að auki hvetur félagið samtökin til að tryggja að sú fagþekking sem hefur byggst upp undanfarin ár undir stjórn Valgerðar Rúnarsdóttur, forstjóra og yfirlæknis, verði áfram tryggð.

mbl.is