Leggst frekar á börn víðar en í Bandaríkjunum

Það er dýrt að ala upp börn og hjá mörgum …
Það er dýrt að ala upp börn og hjá mörgum eru hjól munaðarvara. Morgunblaðið/Ernir

Ásgeir Haraldsson, yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, segir það alveg ljóst að Delta-afbrigðið leggist frekar á börn, sérstaklega unglinga, en fyrri afbrigði; gögn frá Bandaríkjunum sýni fram á það auk þess sem það sé reynslan á Norðurlöndunum. 

Spurður hvort hægt sé að yfirfæra þessar niðurstöður á íslenskt samfélag, þegar heilbrigði barna vestanhafs er borið saman við heilbrigði íslenskra barna, segir hann:

„Það er alveg rétt hjá þér að börn í Bandaríkjunum eru í mörgum tilfellum á öðrum stað hvað heilbrigði varðar en til dæmis börn á Norðurlöndunum. Það sést samt einnig á Norðurlöndunum að það eru fleiri börn að veikjast og leggjast inn en í fyrri bylgjum.“

Afbrigðið vegi þyngra en það að börn séu óbólusett

Gögn sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna, samtaka barnalækna í Bandaríkjunum og sóttvarnastofnunar Evrópu benda til þess að Delta-afbrigðið leggist frekar á börn en mbl.is fjallaði um þau á föstudaginn var. 

Er hægt að draga þá ályktun að þetta sé vegna Delta-afbrigðisins, eða er þetta kannski vegna þess að börn hafa ekki verið bólusett?

„Þetta virðist vera, samkvæmt reynslu annarra, tengt afbrigðinu, að það nái betur til barna en fyrri afbrigði.“ 

Börn á aldrinum 12 til 16 ára fá bólusetningu við Covid-19 í næstu viku.

Ásgeir Haraldsson, yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins og sérfræðingur í ónæmislækningum …
Ásgeir Haraldsson, yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins og sérfræðingur í ónæmislækningum barna. mbl.is

Stöðugt eftirlit með börnunum hafi sitt að segja

Þá nefnir Ásgeir einnig að Barnaspítalinn hafi stöðugt eftirlit með börnum sem greinst hafa smituð og það kunni að minnka líkur á að þau þurfi á spítalainnlögn að halda. Enn hafa engin börn þurft að leggjast inn á spítala vegna smits.

„Við fylgjumst vel með og hringjum í alla þessa krakka, við á Barnaspítala Hringsins sjáum um það en ekki Covid-göngudeildin. Við fylgjumst vel með líðan þeirra,“ segir hann.

Telur einkenni af Covid alvarlegri en aukaverkanir á borð við hjartabólgu

Hvað varðar bólusetningar barna telur Ásgeir aðsenda grein hjartalæknanna Sigfúsar Örvars Gizurarsonar og Kristjáns Guðmundssonar ekki alveg nógu vel rökstudda.

Þar töldu þeir að heilbrigð börn án alvarlegra undirliggjandi sjúkdóma væru í afar lítilli hættu á að veikjast alvarlega í kjölfar kórónuveirusýkinga. Vöktu þeir at­hygli á að ung­menni hér á landi hefðu greinst með hjarta­vöðva­bólgu og bólgu í goll­urs­húsi eft­ir bólu­setn­ing­ar.

„Þær aukaverkanir eru vissulega til en eru afar sjaldgæfar, meðal annars bólga í hjartavöðva. Það er hins vegar vel þekkt að eftir sýkingu með Covid koma alls konar aukaeinkenni fram og eru miklu algengrari og mun alvarlegri en eftir bólusetninguna, þar með talið bólga í hjartavöðva. Slíkri bólgu hefur verið vel lýst eftir smit, bæði hjá börnum og fullorðnum,“ segir hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert