Það er of seint að vera ekki bjartsýnn

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra flutti inngang á málstofu um fæðuöryggi og …
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra flutti inngang á málstofu um fæðuöryggi og sjálfsbjargarviðleitni á Norðurslóðum í Hörpu í morgun. mbl.is/Hákon Pálsson

„Mannkynið stendur frammi fyrir gríðarlegum áskorunum alls staðar í heiminum og auðvitað ekki síður á Íslandi en annars staðar. Hins vegar eru hér gríðarlega mikil tækifæri sem felast í því að við búum að því að hafa aðgang að orku, vatni, landrými en ekki síst þekkingu, háu menntunarstigi og öflugri og mikilli lýðræðishefð,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra spurð að því í samtali við blaðamann mbl.is hvaða áskorunum íslenska þjóðin standi frammi fyrir næstu misserin þegar komi að loftlagsmálum.

„Þannig höfum við í raun og veru grundvöll til þess að nýta okkur nýjustu og bestu þekkingu á hverjum tíma til þess að leggja okkar af mörkum en til þess þurfum við að vera sókndjörf og kjörkuð.“

Milljónir svelta þrátt fyrir nægan mat

Svandís flutti inngang á málstofu um fæðuöryggi og sjálfsbjargarviðleitni á Norðurslóðum á þingi Hringborðs Norðurslóða í Hörpu í morgun þar sem hún talaði meðal annars um að fæðuöryggi væri hnattræn áskorun.

„Á meðan heimurinn framleiðir nægilega mikinn mat fyrir alla jarðarbúa eru samt milljónir sem svelta. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum er nær 9% mannkyns ekki að fá næga næringu. Fæðuöryggi snýst ekki einungis um það að hafa nægan mat heldur einnig að hafa aðgang að næringarríkum og öruggum matvælum svo lifa megi heilbrigðu og virku lífi.“

Á málstofunni tók hún einnig fram að á Íslandi séu 53% þeirra matvæla sem neytt eru framleidd hér á landi á meðan hlutfallið á Grænlandi sé einungis 17% og 22% í Færeyjum. Segir hún að samkvæmt nýrri íslenskri matvælastefnu, sem tekin var í gagnið fyrr á árinu, sé eitt af markmiðunum að tryggja að við eigum ávallt ákveðinn matvælaforða í landinu sem og aðföng til framleiðslu.

„Eftir heimsfaraldurinn og stríðið í Úkraínu hugsum við enn meira um fæðuöryggið en áður. Okkur varð skyndilega ljóst að við getum ekki tekið því sem sjálfsögðum hlut.“

Samkvæmt nýrri íslenskri matvælastefnu er markmiðið meðal annars að tryggja …
Samkvæmt nýrri íslenskri matvælastefnu er markmiðið meðal annars að tryggja ávallt nægilegt magn matvæla í landinu. mbl.is/Hákon Pálsson

Mikilvægt að nýta hringrásarhagkerfið

Þá segir Svandís einnig í samtali við blaðamann að ráðstefna eins og Hringborð Norðurslóða sé vettvangur þar sem komið sé saman og skipst á skoðunum og sýn sem skipti miklu máli og hvað fæðuöryggismálin varði snúist sjónarmiðin einkum um að draga úr mikilvægi innfluttra aðfanga.

„Það skiptir máli að við séum meira að horfa til þess að nýta þá lífrænu ferla sem falla til við framleiðslu, setja þá aftur inn í hringrásarhagkerfið og draga þar með úr kolefnisspori í lífsferli vörunnar. Fæðukerfi heimsins eru gríðarlega stórir losendur gróðurhúsalofttegunda og það hefur verið bent á að það skiptir mjög miklu máli að við nálgumst fæðukerfin sem heild með það fyrir augum að draga úr kolefnislosun eins og hægt er og þar með að draga úr matarsóun.“

Við þurfum á náttúrunni að halda

Spurð að því að lokum hvort hún sé bjartsýn á að með sameiginlegu átaki í heiminum sé hægt að snúa hnattrænni hlýnun við svarar hún því til að það sé of seint að vera ekki bjartsýnn.

„Ef við missum trúna á það að við séum að ná að snúa þessari þróun við að þá er hætt við því að það grípi um sig áhugaleysi á loftlagsmálum. Þannig að já, ég er bjartsýn, málið er sífellt meira á dagskrá. Loftlagsmál eru orðin allt um lykjandi, ekki bara í tilteknum ráðuneytum eða málaflokkum heldur miklu frekar þannig að við getum ekki rætt í raun og veru nein mál öðruvísi en að hafa loftlagssjónarmiðin með.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þetta ekki bara um hlýnun jarðar og súrnun sjávar heldur um grundvöll vistkerfa jarðarinnar og við verðum að minna okkur á það að maðurinn er hluti af vistkerfinu. Við getum ekkert án heilbrigðra vistkerfa en náttúran þarf ekki á okkur að halda en við þurfum hana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert