Vinna við varnargarða hafin að nýju

Byggingavinnu að varnargörðum var hætt tímabundið þegar neyðarstigi var lýst …
Byggingavinnu að varnargörðum var hætt tímabundið þegar neyðarstigi var lýst yfir. Nú er vinnan hafin að nýju. Samsett mynd

„Ég get upplýst að í dag hefur vinna hafist aftur. Það er hafinn efnisflutningur aftur inn á svæðið, sem er gott,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra um byggingu varargarða en byggingarvinna hefur legið á ís frá því að Grindavík var rýmd á föstudag vegna yfirvofandi eldgoss.

Guðrúnu barst tillaga frá ríkislögreglustjóra á fimmtudag um byggingu varnargarða til þess að verja orkuverið í Svartsengi.

Flutningur á vinnutækjum, möl og byggingarefni inn á svæðið hófst í síðustu viku en byggingavinnan hætti þegar neyðarstigi var lýst yfir og ljóst var að ekki væri öruggt fyrir verktaka að vinna að varnargörðum vegna jarðhræringanna.

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra Íslands
Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra Íslands mbl.is/Óttar Geirsson

Fjármálaráðuneytið má svara fyrir forvarnagjaldið

Í dag er frum­varp for­sæt­is­ráðherra um vernd mik­il­vægra innviða á Reykja­nesi til umræðu á Alþingi. Það var einnig til umræði í allsherjar- og menntamálanefnd. Á fundinum ræddi Guðrún, sem æðsti yfirmaður almannavarna, m.a. stöðuna á Reykjanesi og framkvæmdina sjálfa og því sem ríkisstjórnin óskar eftir með frumvarpinu.

Nokkrir úr stjórnarandstöðunni hafa sett spurningarmerki við nokkra liði frumvarpsins. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir benti m.a. á, bæði á þingi og í viðtali við mbl.is fyrr í dag, að vikið yrði frá níu lagabálkum við samþykkt frumvarpsins. Hún dró forvarnagjöld frumvarpsins í efa.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðrún segir að fyrrgreind deilumál hafi borist til tals á fundinum. „Aftur á móti er ég æðsti yfirmaður almannavarna í landinu. Þar með ber mér að tryggja almannaheill, vernd og öryggi borgaranna, og ég geri það. Þess vegna lagði ég þetta til í ríkisstjórn á föstudag,“ segir hún.

„Þá ber mér að halda uppi þessum almannavörnum gegn náttúruvá. Það er mitt hlutverk. Ég tala fyrir því en þá ætla ég að leyfa öðrum að svara fyrir það hvernig á að greiða það – því fjármálaráðuneytið kom að samþykki þessa frumvarps og það var fjármálaráðuneytið sem lagði til þessa gjaldtöku,“ bætir ráðherra við.

Ekki náð að kanna bann við drónaflugi

Samgöngustofa hefur bannað drónaflug við Grindavík vegna yfirvofandi eldgoss á svæðinu. Var það gert að beiðni almannavarna svo flygildin trufluðu ekki hugsanlegt vísindaflug og til að passa að fólk væri ekki að athafna sig á svæðinu. 

Blaðamannafélag Íslands gaf út tilkynningu þar sem sagt var að ekki væri lagaheimild væri fyrir slíku banni.

Guðrún segist hafa fengið beiðni frá BÍ um að skoða málið en hefur ekki náð að kanna það frekar, þar sem dagurinn verið afar erilsamur dagur. „Ég er að láta skoða þetta í ráðuneytinu en ég hef ekki komist upp í ráðuneyti í dag,“ segir hún.

„Ég skil þessa umræðu og ég skil að blaðamenn gegna líka hlutverki að miðla upplýsingum til almennings og lýsa því sem er að gerast.“

Tjónið í Grindavík „hleypur á milljörðum“

Grindvíkingar hafa allir fengið heimild til þess að sækja nauðsynjar heim til sín. Guðrún segir að þá hafi komið í ljós að tjónið í bænum væru mun umfangsmeira en gert var ráð fyrir eða vonast var eftir.

„Þetta eru meiriháttar náttúruhamfarir sem þegar hafa átt sér stað,“ segir Guðrún. „Gatnakerfið er gríðarlega illa farir. Ég hugsa að allar lagnir sem eru í jörðu er ónýtar, hjúkrunarheimilið er líklega ónýtt, kirkjan er mikið skemmd, íþróttamannvirkin eru mikið skemmd. Þannig við erum komin þegar í tjón sem hleypur á milljörðum.“

Innviðir í Grindavík eru laskaðir eftir jarðskjálftahrinuna.
Innviðir í Grindavík eru laskaðir eftir jarðskjálftahrinuna. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Sprungur hafa myndast í mörgum götum og gangstéttum Grindavíkur.
Sprungur hafa myndast í mörgum götum og gangstéttum Grindavíkur. mbl.is/Brynjólfur Löve

Tæp 4.000 gætu orðið að 30.000

„Við erum auðvitað öll að vona að þessi kvika muni ekki finna sér kvika inn í Grindavíkurbæ, sem gæti mögulega gerst. Þetta er einn af þessum stærri viðburðum í náttúruógn sem við höfum tekist á við á Íslandi. Þessi náttúruógn ógnar starfsemi orkuversins í Svartsengi,“ segir dómsmálaráðherra.

„Við erum núna með, því miður, tæplega fjögur þúsund manns sem hafa þurft að flýja heimili sín. Ef við missum orkuverið, gæti þessi hópur farið í þrjátíu þúsund,“ segir hún. „Þess vegna mun ég leggja mikla áherslu á það að við komum upp vörnum um orkuverið. Því orka er bara þannig í lífinu öllu að þetta er lífæð alls.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert