Fiskurinn: Ekki gefast upp þó það sé órói í loftinu

Elsku Fiskurinn minn,

þú ert að finna til svo mikils skilning á öllu mögulegu og ferð að ganga í takt við sjálfan þig. Neptúnus er svolítið sterkur inn í lífi þínu núna og þar af leiðandi gætirðu haft áhyggjur, því það er draugagangur í kringum þig sem tengist veraldlegum hlutum.

Það kemur inn í hjarta þitt eins og vitrun að þú þurfir hvað sem á dynur að alltaf haga þér eins og sigurvegari. Þetta er ákvörðun sem þú skalt líka bara hugsa á hverjum morgni; ég er sigurvegari er gott orð og það er nefnilega dagsatt að í þér býr sigurvegari.

En þegar tilfinningarnar segja allt annað er það í raun blekking. Þú þolir ekki að hafa of mikinn tíma til að hugsa og nöldur og nag frá þeim sem eru í kringum þig pirrar þig miklu meira en vanalega.

Ekki gefast upp að neinu leyti þó vinnan eða verkefnin valdi þér óróa. Þú ert að fara yfir brúnna og þá sérðu að þú ert virkilega hamingjusamur í því sem er að gerast.  Og það eru bara agnarstutt augnablik sem slá þig út af laginu.

Þegar ég var að stúdera merkin, skoða þau og grufla mig áfram, þá kom í ljós að þú ert eitt af stjörnumerkjunum sem sögð eru heppnustu merkin. Svo það er alveg sama þó þú sért að vaða yfir djúpan sjó, því heppnin fylgir þér eins og engill.

Þú færð tilboð um að taka þátt í einhverju merkilegu og skemmtilegu. Þetta þarf ekki að hafa fjárhagslegan ávinning. En segðu bara já vegna þess að það gerist eitthvað óvænt og mikilfenglegt með þessu. Og röð tilviljana,  þó ég trúi nú ekki á þær, kemur þér á þann topp sem þú vilt komast á.

Þú ert bæði, hlýr og blíður, en pínulítið stjórnsamur. Og hefur þá tíðni að senda frá þér svo fallega heilun sem hjálpar fólki sem líður illa að þeim gangi betur. Það er svo sterkt karma í kringum þig, svo þú færð svo margfalt tilbaka þína gjafmildi og gæsku sem þú hefur sýnt öðrum. Þú ert ást svo ástin fellur fyrir þér í allri einlægni þinni.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is