Verður Schoop liðsfélagi Kaká?

Jacob Schoop verður í Orlando næstu daga.
Jacob Schoop verður í Orlando næstu daga. mbl.is/Eva Björk

Danski miðjumaðurinn Jacob Schoop, sem lék með KR á síðustu leiktíð í Pepsideildinni í knattspyrnu, verður til reynslu hjá bandaríska MLS-liðinu Orlando City næstu daga.

Guðlaugur Tómasson, umboðsmaður Schoop, staðfestir þetta við MLSoccer.dk. Schoop er án samnings eftir veruna hjá KR og vonast til þess að geta unnið sér inn samning hjá Orlando-liðinu, sem er meðal annars með brasilísku stjörnuna Kaká í sínum herbúðum.

Þar með minnka enn líkurnar á að Schoop spili með KR á næstu leiktíð. Í desember greindi Henrik Bödker, markvarðaþjálfari KR, frá því við bold.dk að félagið vonaðist eftir því að halda Schoop. Vel væri þó mögulegt að hann fyndi sér annað félag: „Við höfum skilning á því en ef hann finnur ekki eitthvað sem hann vill þá höfum við rætt um að setjast niður og ræða málin. Við höfum verið mjög ánægðir með hann og mín tilfinning er sú að hann hafi verið ánægður hjá okkur,“ sagði Bödker fyrir tæpum mánuði síðan.

mbl.is