„Ekki seinna en núna“

Skúli Jón Friðgeirsson í baráttunni við Hólmbert Aron Friðjónsson
Skúli Jón Friðgeirsson í baráttunni við Hólmbert Aron Friðjónsson mbl.is/Golli

„Við þurfum að gera eitthvað, ekki seinna en núna,“ sagði Skúli Jón Friðgeirsson, miðtengiliður KR, í samtali við mbl.is að loknum leik Stjörnunnar og KR í Pepsí-deildinni í kvöld sem lauk með 2:0 sigri Stjörnunnar. 

KR er í 10. sæti í deildinni eða við fallsvæðið þegar mótið er hálfnað en KR á reyndar leik til góða. Hvernig sér Skúli fyrir sér framhaldið? „Það er erfitt að segja en við gerum náttúrlega ekkert annað en að líta upp á við. Við höfum fulla trú á þessu. Við vorum í sömu stöðu í fyrra og náðum að bjarga okkur út úr því. Við verðum að hafa trú á að við getum gert það aftur.“

Minnir gengi KR-liðsins Skúla á tímabilið í fyrra? „Gengi liðsins er svo sem svipað. Þetta er ekki að falla með okkur auk þess sem við fáum á okkur ódýr mörk. Við skorum lítið og þessi atriði minna helst á tímabilið í fyrra. Mér finnst við oft spila ágætlega þótt mér fannst við ekki gera það í kvöld. Við verðum að hafa trú á hlutunum og að sigrarnir muni koma,“ sagði Skúli í samtali við mbl.is í Garðabænum. 

mbl.is