Breiðablik fór upp fyrir ÍBV

Breiðablik hafði betur 2:0 gegn Fylki í Árbæ í 13. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu. Breiðablik fer þá upp fyrir ÍBV í 3. sæti deildarinnar með 27 stig eins og Stjarnan sem er í 2. sæti. Fylkir er í næstneðsta sæti með 5 stig. 

Bæði mörk leiksins komu í fyrri hálfleik. Rakel Hönnudóttir fyrirliði Blika kom þeim yfir eftir góða sókn á 28. mínútu. Fékk sendingu frá Svövu Rós, tók vel við boltanum í teignum og skoraði með skoti á milli fóta Þórdísar sem kom á móti henni.

Á 35. mínútu gerðist umdeilt atvik þegar dómari leiksins, Einar Ingi Jóhannsson, dæmdi að því er virtist ódýra vítaspyrnu á Brooke Hendrix. Hún virtist renna sér löglega í Berglindi Björgu en dæmd var vítaspyrna og úr henni skoraði Ingibjörg Sigurðardóttir af öryggi.

Fremur rólegt var yfir leiknum í síðari hálfleik. Fylkir náði aldrei það miklum sóknarþunga að liðið væri líklegt til að vinna upp forskot Blika. Fylkisliðið átti þó ágætar skyndisóknir en tókst ekki að gera sér mat úr þeim.

Blikra héldu boltanum ágætlega innan liðsins og lönduðu sigrinum án mikilla vandræða og gæti enn blandað sér í baráttuna um titilinn ef önnur úrslit verða þeim í hag, þótt það sé orðið ólíklegt. 

Fylkir 0:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Leik lokið Leiknum er lokið með 2:0 sigri Breiðabliks.
mbl.is