„Þetta mun hafa mikil áhrif á landsliðið“

Freyr Alexandersson og Dagný Brynjarsdóttir er hér í forgrunni.
Freyr Alexandersson og Dagný Brynjarsdóttir er hér í forgrunni. mbl.is/Golli

„Auðvitað hefur þetta gríðarleg áhrif á okkur,“ sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, við mbl.is en hann tilkynnti það á fréttamannafundi í dag að Dagný Brynjarsdóttir væri barnshafandi og því úr leik í verkefnum landsliðsins á árinu.

Dagný er algjör lykilmaður í landsliðinu sem háir harða baráttu um sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fer á næsta ári og Freyr leyndi því ekki að fjarvera hennar mun hafa áhrif á liðið.

„Hún er einn af bestu leikmönnum landsliðsins og gríðarlega mikilvæg jafnt í sókn sem vörn, ég tala nú ekki um föst leikatriði. Þetta mun hafa mikil áhrif á landsliðið og ég ætla ekki að fara í kringum hlutina með það. Við tökumst á við það en hún er að fara í nýtt verkefni og vonandi gengur það allt vel,“ sagði Freyr og vonast til þess að fá Dagnýju sterka til baka.

„Það skiptir öllu núna að meðgangan og fæðingin og allt sem fylgir þessu gangi vel. Hún kemur svo vonandi bara sterk til baka og heldur áfram að skrifa sinn kafla í fótboltanum. Hún var á frábærum stað eins og við sáum í leikjunum gegn Þýskalandi og Tékklandi, en hennar kafli heldur áfram 2019.“

Yngri og óreyndari leikmenn fá tækifæri

Freyr valdi í dag landsliðshóp sem heldur til Spánar og mætir þar Noregi í vináttuleik, en þetta er í fyrsta sinn sem kvennalandsliðið spilar opinberan leik í janúar.

„Það er frábært. Við slepptum verkefni í nóvember og vonuðumst eftir því að fá gott verkefni í janúar í staðinn og það gekk upp. Það er frábært á þessum árstíma að komast á gras og æfa við toppaðstæður, ofan á það að fá leik við Noreg,“ sagði Freyr sem ætlar sérstaklega að horfa til yngri leikmanna hópsins í þessari ferð.

„Ég mun nýta þetta verkefni til þess að gefa yngri og óreyndari leikmönnum stærra hlutverk og tækifæri til að sýna sig og sanna meðal okkar sterkustu leikmanna. Það gefst varla betra tækifæri en þetta enda engin pressa um úrslit gegn sterkasta liði Noregs. Ég vil bara sjá góða frammistöðu og hvar leikmenn standa.“

Harpa og Hólmfríður liggja undir feldi

Auk þess sem Dagný er fjarverandi þá valdi Freyr ekki eldri og reynslumikla leikmenn á borð við Hörpu Þorsteinsdóttur og Hólmfríði Magnúsdóttur. Eru þær út úr myndinni?

„Hólmfríður var meidd undir lok tímabilsins og þær eru engan veginn út úr myndinni. Þetta snýst bara um hvað þær ætla að gera með sinn feril. Eins og staðan er núna er það óljóst og þá bíð ég með það að velja þær í landslið.

Hafa þær þá ekki gefið það út hvort þær ætli að halda áfram?

„Þær hafa ekki tekið ákvörðun um það svo við sjáum bara til. Þetta eru frábærir leikmenn með gríðarlega reynslu og ef þær verða í góðu líkamlegu standi þá er það klárlega opið ennþá að þær verði í landsliðinu. Ég mun alltaf velja besta íslenska landsliðið þegar kemur að leikjum.“

Freyr Alexandersson á landsliðsæfingu.
Freyr Alexandersson á landsliðsæfingu. mbl.is/Golli

Ekki sjálfkrafa jákvætt að fara í atvinnumennsku

Íslenska kvennalandsliðið olli vonbrigðum á Evrópumótinu í Hollandi í sumar og Freyr hefur kallað eftir því að fleiri leikmenn fari út í atvinnumennsku. Leikmenn hafa sannarlega svarað kallinu og meðal annars hafa fimm leikmenn Breiðabliks haldið út frá í haust. Freyr segir það þó ekki vera eina breytan sem skipti máli.

„Það er ekki endilega víst að þetta nýtist landsliðinu einn, tveir og þrír þótt leikmenn séu komnir í atvinnumennsku. Það er oft betra að vera á öruggum stað, en ég held að flestir þessir leikmenn sem hafa verið að fara út séu einmitt á þeim aldri að það sé spurning um núna eða ekki að prófa að fara út. Þær eru að skipta um umhverfi og það eru alltaf erfiðleikar sem fylgja. Mér finnst mikilvægt að leikmenn átti sig á því,“ sagði Freyr.

Hann tók þó undir að jákvætt sé hversu margar hafa viljað helga sig knattspyrnunni.

„Þetta er ekki sjálfsagt því við vitum að þær verða ekki ríkar á þessu. Þetta er mjög mikil skuldbinding en þær sem eru að fara út núna hafa það sameiginlegt að hafa annað hvort verið að klára nám eða geta verið í einhverju fjarnámi. Þetta hittist vel á hjá þeim flestum, það verður spennandi að fylgjast með og vonandi mun þetta nýtast landsliðinu vel,“ sagði Freyr Alexandersson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert