Óþarflega stórt tap gegn Mexíkó

Íslenska landsliðið í knattspyrnu varð að sætta sig við 3:0-tap gegn Mexíkó í vináttuleik í Santa Clara í Kaliforníu í nótt. Þrátt fyrir markatöluna var margt jákvætt í leik íslenska liðsins og tapið óþarflega stórt miðað við gang hans.

Ísland var sterkari aðilinn stóran hluta fyrri hálfleiks, en þrátt fyrir það skoraði Marco Fabián fyrsta mark leiksins á 37. mínútu. Mexíkó fékk þá aukaspyrnu rétt utan teigs eftir að dómari leiksins taldi Emil Hallfreðsson brotlegan, en endursýningar sýndu að það var afar harður dómur. 

Fabián var hins vegar alveg sama, því hann skoraði með fallegu skoti yfir vegginn og framhjá Rúnari Alex Rúnarssyni, sem hefði hugsanlega getað gert betur. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiks þrátt fyrir góð færi hjá bæði Sverri Inga Ingasyni og Jóhanni Berg Guðmundssyni. 

Síðari hálfleikurinn var jafn og náði hvorugt liðið að skapa sér mikið af færum þangað til Miguel Layún skoraði á 64. mínútu. Hirving Lozano vann þá boltann á miðjum vallarhelmingi Íslands, lagði hann á Layún, sem skoraði með föstu skoti í fjærhornið. 

Hólmar Örn Rúnarsson náði að koma boltanum í netið skömmu eftir að Viðar Örn Kjartansson skaut í stöng úr úrvalsfæri, en dæmd var rangstaða á Viðar, sem lagði boltann á Hólmar. Var það mjög tæpt, en hugsanlega réttur dómur, en atvikið átti sér stað á 78. mínútu. 

Miguel Layún skoraði svo þriðja mark Mexíkóa á lokamínútunni er skot hans utan af kanti fór yfir Rúnar Alex, sem var illa staðsettur, og í markið og þar við sat. Að mörgu leyti fínn leikur Íslands, en leiðinlega stórt tap. 

Mexíkó 3:0 Ísland opna loka
90. mín. Miguel Layún (Mexíkó) skorar 3:0 - Klaufalegt hjá Rúnari Alex. Layún tekur skot lengst utan af kanti og skorar yfir Rúnar í markinu. Óþarflega stórt tap miðað við gang leiksins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert