„Við gáfum þeim mark“

Sindri Snær, lengst til hægri, í vítateig Fylkis í kvöld.
Sindri Snær, lengst til hægri, í vítateig Fylkis í kvöld. mbl.is/Hari

Sindri Snær Magnússon, fyrirliði ÍBV, sagði Eyjamenn nánast hafa byrjað 1:0 í tapleiknum gegn Fylki í Egilshöllinni í kvöld. 

Fylkir skoraði strax á 4. mínútu og þannig var staðan þar til á 89. mínútu þegar Fylkir komst í 2:0. ÍBV minnkaði muninn í uppbótartíma og úrslitin urðu 2:1. 

„Við byrjuðum leikinn nánast 1:0 undir og þurftum að vinna út frá því. Það var bókstaflega þannig enda vorum við með hausinn uppi í rassgatinu fyrstu mínúturnar og gáfum þeim mark á silfurfati. Við reyndum að vinna okkur út úr því en vorum bara slakir fyrsta hálftímann. En mér fannst okkur takast að vinna okkur inn í leikinn eftir það og verða ofan á í baráttunni. Við náðum ekki að nýta færin og það kom heldur betur í bakið á okkur,“ sagði Sindri þegar mbl.is ræddi við hann í Egilshöllinni. 

ÍBV er enn að púsla sínu liði saman og hafa leikmenn bæst við eftir að deildin byrjaði. Liðið er með 1 stig eftir fjóra leiki. „Okkur hefur gengið þokkalega að púsla þessu saman þótt úrslitin hafi ekki sýnt það. Góðir kaflar í fyrstu fjóru leikjunum eru of fáir en þeir kaflar sem hafa verið góðir hafa verið mjög góðir. En okkur tekst ekki að nýta þá til að skora.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert