Þetta var algjört rugl

Pétur Viðarsson og Jóhann Helgi Hannesson í baráttu um boltann …
Pétur Viðarsson og Jóhann Helgi Hannesson í baráttu um boltann í Kaplakrika í dag. mbl.is/Eggert

„Við erum súrir með þessi úrslit og sérstaklega vegna allrar þeirra vinnu sem við lögðum í þennan leik,“ sagði Björn Berg Bryde, fyrirliði Grindvíkinga, við mbl.is eftir 2:1 tap gegn FH-ingum í fyrsta leik 12. umferðar í Pepsi-deild karla í knattspyrnu en liðin áttust við í Kaplakrika í dag.

„Mér fannst við góðir og þá sérstaklega eftir að það var orðið jafnt í liðunum aftur og við hefðum alveg getað sett þá annað mark. Við fórum í þennan leik til að vinna hann en ekki til að ná jafntefli. Mér fannst miðað við þá vinnu sem við lögðum í leikinn þá áttum við skilið að fá minnst eitt stig. Við höfum sagt það frá byrjun að markmið okkar er að gera betur heldur en í fyrra og við mætum bara tvíefldir í næsta leik,“ sagði Björn Bryde.

Spurður út í rauða spjaldið sem Brynjar Ásgeir Guðmundsson fékk að líta á þegar hann braut á Atla Guðnasyni innan vítateigs eftir rúmlega hálftíma leik sagði Björn Bryde;

„Mér fannst það algjört rugl. Nú erum við allir búnir að vera að horfa á HM og manni er svolítið minnisstætt atvikið með Rojo og Mbappé þegar Rojo hoppaði upp á bakið á Mbappé sem aftasti maður. Þá var dæmt víti og Rojo fékk gult spjald. Ég spurði dómarann út í þetta og hann mundi eftir þessu atviki. Hann sagði að dómarinn hefði haft rangt fyrir sér og reglurnar væru að gefa rautt spjald,“ sagði miðvörðurinn sterki við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert