Held að hún sé fótbrotin

Guðný Árnadóttir átti góðan leik í kvöld.
Guðný Árnadóttir átti góðan leik í kvöld. Ljósmynd/Hanna

„Þetta var mjög mikilvægt. Við þurftum að byrja aftur upp á nýtt og taka einn leik í einu. Þetta hefur ekki alveg gengið nógu vel og við höfum verið að fá allt of mikið af mörkum á okkur, það var því mjög kærkomið að halda hreinu og taka sigurinn," sagði Guðný Árnadóttir, miðvörður FH, eftir 1:0-sigur á Grindavík í Pepsi-deildinni í fótbolta í kvöld. 

FH hefur komist langt á góðum varnarleik undanfarin ár og var Guðný sérstaklega ánægð með varnarleik liðsins í dag. 

„Við hefðum getað skorað meira fannst mér, við vorum betri í þessum leik. Góður varnarleikur hefur einkennt okkur í gegnum árin en við höfum ekki náð því í ár. Það er því mjög gott að ná því í dag. Við vorum mikið þéttari núna. Við tókum varnarleikinn í gegn, hver einn og einasti leikmaður. Við vorum mjög ákveðnar, vorum að vinna bolta og gerðum þetta af krafti."

FH er enn í fallsæti þrátt fyrir sigurinn, en nú með sex stig, einu stigi minna en HK/Víkingur. 

„Við eigum að geta unnið öll þessu lið, kannski héldum við að við værum betri en við erum, en ég er ekki viss. Það er erfitt að segja, en höfum verið að fá á okkur klaufaleg mörk og dottið niður eftir það."

Marjani Hing-Glover fór meidd af velli í seinni hálfleik og er hún væntanlega fótbrotin, en hún fór með sjúkrabíl á spítala. 

„Ég held hún sé fótbrotin, ökklinn snerist alveg var mér sagt. Þetta var hræðilegt, en við þurftum að halda haus og heyra í henni á eftir," sagði Guðný að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert