Vitum alltaf af Evrópubaráttunni

Ásgeir Sigurgeirsson.
Ásgeir Sigurgeirsson. Ljósmynd/,Þórir Tryggvason

„Þeir eru þéttir og það er erfitt að ná fyrsta markinu hérna. Um leið og það kom varð þetta auðveldara,“ sagði Ásgeir Sigurgeirsson, leikmaður KA, eftir 3:0-sigur á Keflavík í 16. umferð Pepsi-deildarinnar í kvöld.

Ásgeir skoraði sjálfur laglegt mark í kvöld og var síðan felldur inni í teig sem skilaði vítaspyrnu og þriðja marki KA-manna. Keflvíkingar voru ekki sáttir með þann vítaspyrnudóm en Ásgeir segir á sér hafa verið brotið.

„Mér finnst það, ég er að fara setja boltann í markið og þá fer hann aftan í mig. Hvort þetta hafi verið inni í vítateig veit ég ekki en annars hefði það bara verið rautt spjald.“

KA hefur nú unnið fjóra af síðustu sex leikjum sínum eftir brösuglega byrjun á mótinu. Liðið er með 22 stig í 7. sæti og gæti, með góðum endaspretti, gert atlögu að Evrópusæti. Ásgeir segir leikmenn liðsins gera sér grein fyrir því en þeir fara þó ekki fram úr sér.

„Auðvitað vitum við alltaf af henni en við þurfum enn þá að vinna þessi lið í kringum okkur. Þá getum við kannski farið að horfa upp á við.“

mbl.is