„Þetta var ótrúlega sárt“

Albert Guðmundsson gat ekki leynt vonbrigðum sínum eftir leikinn gegn ...
Albert Guðmundsson gat ekki leynt vonbrigðum sínum eftir leikinn gegn Slóvökum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er grautfúll enda er fáránlega sárt að missa þetta svona niður á lokamínútunum,“ sagði Albert Guðmundsson, fyrirliði U21-landsliðs Íslands í knattspyrnu, eftir 3:2-tapið gegn Slóvakíu í undankeppni EM.

Þrjú mörk voru skoruð á hreint ótrúlegum lokamínútum leiksins þar sem bæði lið reyndu að sækja til sigurs:

„Ég var nýbúinn að klúðra færi, mínútu áður en þeir komust í 2:1. Svo klúðrum við líka dauðafæri áður en þeir komast í 3:2. Þetta var ótrúlega sárt,“ sagði Albert. Snemma í seinni hálfleik hefðu Slóvakar getað misst mann af velli þegar Andrej Kadlec braut á Alberti í skyndisókn:

„Í mínum bókum er þetta bara rautt spjald. Dómarinn vildi meina að ég hefði verið á leið frá markinu, sem er vissulega rétt, en ég átti ekkert eftir nema að setja boltann í autt markið með vinstri. Þetta var fáránlegur dómur, einfaldlega röng ákvörðun,“ sagði Albert og óhætt er að taka undir það. Í heild var þó fyrirliðinn ekkert allt of ánægður með spilamennsku íslenska liðsins:

Albert Guðmundson á ferðinni gegn Slóvakíu í dag.
Albert Guðmundson á ferðinni gegn Slóvakíu í dag. mbl.is/Eggert

„Mér fannst við slappir í fyrri hálfleik, að fá á okkur auðveld færi og þeir hefðu hæglega getað komist í 2:0 eða 3:0 ef ekki hefði verið fyrir Aron Snæ sem stóð sig frábærlega í markinu. En við náðum að halda þessu og komast í 1:0. Seinni hálfleikurinn var skárri, kannski vegna þess að þeir blésu aðeins til sóknar og þetta varð smá borðtennis. Leikurinn var eflaust góður fyrir augað en úrslitin ekki sérstök fyrir okkur.“

Ísland er nú fjórum stigum á eftir Slóvakíu í baráttunni um 2. sæti riðilsins og svo til úr leik í baráttunni um að komast í umspil um sæti á EM.

„Nú er bara að fara í alla leiki til að bæta okkur sem fótboltamenn, því við eigum að vera framtíðin fyrir Ísland ef við höldum rétt á spilunum. Við notum hvern einasta leik til þess að bæta okkur,“ segir Albert.

mbl.is