Miklvægt að halda kúlinu og klára þetta

Atli verst hér hornspyrnu Keflvíkinga ásamt Sindra Snæ Jenssyni, markverði …
Atli verst hér hornspyrnu Keflvíkinga ásamt Sindra Snæ Jenssyni, markverði KR, og Kennie Chopart. mbl.is/Valli

Akureyringurinn Atli Sigurjónsson var sáttur eftir 3:1-sigur KR gegn Keflavík í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag. Atli lék gríðarlega vel en hann skoraði annað mark KR-inga, sem eru í fjórða sæti deildarinnar með 33 stig.

„Þetta var ekki mjög fallegt framan af en var þolinmæðisvinna. Við vorum búnir að tala um það fyrir leikinn að þetta gæti orðið erfitt en við höfum verið of óþolinmóðir í sumum leikjum áður,“ sagði Atli við mbl.is eftir leikinn.

„Það var mjög mikilvægt að halda kúlinu og klára þetta,“ bætti hann við.

Einhverjum KR-ingum brá í brún þegar Keflvíkingar náðu forystu í leiknum en Suðurnesjapiltar hafa ekki unnið deildarleik í sumar. Þeir voru nánast enn að fagna markinu þegar Pálmi Rafn Pálmason jafnaði fyrir KR og Atli sagði að það hafi verið gríðarlega mikilvægt að jafna strax

Atli kom KR yfir með marki á 74. mínútu en hann fékk boltann við vítateigslínu og renndi honum af öryggi niðri í hornið hægra megin við Sindra í marki Keflavíkur. „Það var mjög ánægjulegt að skora, sérstaklega eftir að ég rann á rassinn í fyrri hálfleik í dauðafæri,“ sagði Atli og glotti.

KR er tveimur stigum á undan FH þegar tvær umferðir eru óleiknar en liðin berjast um fjórða sætið sem gefur þátttökurétt í Evrópukeppni á næsta ári. „Sigurinn í dag breytir voða litlu. Við ætlum bara að klára okkar leiki og þá förum við í Evrópukeppni,“ sagði Atli og neitaði að taka undir með blaðamanni að þetta væri nánast í höfn hjá KR-ingum:

„Ekki segja neitt heimskulegt,“ sagði Atli og hló.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert