Dásamaði Gylfa og íslenska liðið

Hugo Lloris og félagar hafa skiljanlega verið duglegir að fagna …
Hugo Lloris og félagar hafa skiljanlega verið duglegir að fagna heimsmeistaratitlinum síðan í Rússlandi í sumar. AFP

„Ég spilaði með Gylfa eina leiktíð og í mínum huga er hann í hópi bestu leikmanna ensku úrvalsdeildarinnar,“ sagði Hugo Lloris, markvörður og fyrirliði franska landsliðsins í knattspyrnu, þegar mbl.is spurði hann út í hans gamla liðsfélaga Gylfa Þór Sigurðsson og íslenska landsliðið.

Ísland og Frakkland mætast í vináttulandsleik í Guingamp á morgun. Liðin mættust síðast árið 2016, einnig í Frakklandi en þá í 8-liða úrslitum EM þar sem Frakkar unnu öruggan sigur. Áður höfðu þeir Lloris og Gylfi leikið saman með liði Tottenham og ljóst er að Lloris telur Hafnfirðinginn skara fram úr í íslenska liðinu:

„Gylfi er ansi ólíkur öðrum í liðinu. Hann hefur stórkostlega tækni, gefur frábærar sendingar með hægri fætinum sínum og nýtir föst leikatriði afar vel,“ sagði Lloris á blaðamannafundinum í Guingamp í dag. Um íslenska liðið hafði hann þetta að segja:

„Við þekkjum Ísland vel eftir að hafa mætt því í erfiðum leik á EM 2016. Jafnvel þó að við höfum unnið 5:2 þá var sá leikur erfiður. Ég man sérstaklega eftir seinni hálfleiknum, þegar úrslitin áttu að vera ráðin, því þeir börðust allt til enda. Andinn í þessu liði er stórkostlegur.

Íslendingar stóðu sig nokkuð vel á HM en voru óheppnir. Þeir hefðu alveg getað komist upp úr sínum riðli. Þetta eru enn sömu leikmennirnir, en búnir að skipta um þjálfara, svo að kannski er þetta orðið aðeins öðruvísi lið með aðrar hugmyndir. Við sjáum til á morgun hvað gerist, en við berum mikla virðingu fyrir þessu liði og því sem það hefur afrekað síðustu ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert