Sorgleg úrslit fyrir strákana

Eyjólfur Sverrisson var svekktur eftir tap liðsins gegn Norður-Írlandi í …
Eyjólfur Sverrisson var svekktur eftir tap liðsins gegn Norður-Írlandi í dag. mbl.is/Eggert

„Strákarnir áttu ekki skilið að tapa hérna í dag. Mér fannst við spila mjög vel og úrslitin eru því hálfsorgleg,“ sagði Eyjólfur Sverrisson, þjálfari íslenska U21 árs landsliðs Íslands, í samtali við mbl.is eftir 1:0-tap liðsins gegn Norður-Írum í 2. riðli undankeppni EM í knattspyrnu í Árbænum í kvöld.

„Við spiluðum glimrandi fótbolta í fyrri hálfleik og fengum langbesta færi leiksins og áttum að vera yfir í hálfleik. Það sást á okkur í seinni hálfleik að það eru ekki margir leikmenn liðsins með 90 mínútur í löppunum á sér og það dró vel af okkur í seinni hálfleik. Mér fannst strákarnir samt halda Norður-Írunum mjög vel niðri, allan tímann, og við áttum alls ekki skilið að tapa þessum leik.“

Íslenska liðið fékk á sig afar klaufalegt mark eftir hornspyrnu og telur Eyjólfur að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir markið.

Aron Snær Friðriksson í baráttunni við Shayne Lavery í Árbænum …
Aron Snær Friðriksson í baráttunni við Shayne Lavery í Árbænum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Áttu að stíga fyrir manninn

„Ég sá markið sem við fáum á okkur ekki nægilega vel og ég á eftir að skoða það betur. Ballard fær frítt hlaup í teignum og auðvitað áttum við bara að stíga fyrir hann og hindra hann í að komast í boltann.“

Norður-Írar færðu sig framar í seinni hálfleik og Eyjólfur beið lengi með að kippa mönnum af velli. Hann var ánægður með gang mála inn á vellinum og sér ekki eftir því að hafa skipt mönnum inn á undir lok leiksins.

„Mér fannst hlutirnir vera að ganga upp hjá okkur. Við fáum á okkur markið, eftir að ég skipti þremur ferskum leikmönnum inn á. Þetta var þannig leikur að þetta hefði getað dottið báðu megin og því miður fyrir okkur þá datt þetta með þeim í dag,“ sagði Eyjólfur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert