Fagmannleg afgreiðsla í fyrsta leik

Ísland hóf undankeppni EM karla í knattspyrnu á fagmannlegum sigri gegn Andorra, 2:0, í Andorra la Vella í kvöld. Birkir Bjarnason og Viðar Örn Kjartansson skoruðu mörkin.

Íslenska liðið hefur lítinn tíma til að jafna sig fyrir næsta leik sem er við sjálfa heimsmeistara Frakka í París á mánudagskvöld. Verkefnin í þessari landsliðsferð gætu varla  verið ólíkari því andstæðingarnir í kvöld eru nær allir áhugamenn í íþróttinni.

Erik Hamrén tefldi fram þrautreyndu byrjunarliði í Andorra í kvöld en var þó með hinn 19 ára gamla Arnór Sigurðsson á vinstri kantinum en Arnór lék sinn þriðja A-landsleik. Ísland tók völdin í upphafi leiks og skapaði sér mjög gott færi snemma þegar Alfreð Finnbogason fékk fyrirgjöf Ara Freys Skúlasonar inn að markteig en hitti boltann ekki nægilega vel. Birkir Bjarnason var einnig nálægt því að skora en dæmdur rangstæður.

Birkir kom hins vegar Íslandi yfir á 22. mínútu þegar hann skallaði boltann í netið af fjærstöng eftir hornspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar og skalla Ragnar Sigurðssonar. Markið var afskaplega mikilvægt því ljóst var frá fyrstu mínútu að Andorramenn ætluðu sér að gera allt til þess að tefja leikinn og freista þess að hanga á jafnteflinu. Heimamenn opnuðu sig hins vegar ekki mikið þrátt fyrir að lenda undir og vörðust áfram á öllum mönnum, aftarlega, en treystu á skyndisóknir og föst leikatriði. Þeim tókst að vera ógnandi í hornspyrnum en sköpuðu aldrei mikla hættu í fyrri hálfleiknum.

Viðar minnti rækilega á sig

Leikurinn var nokkuð rólegur í seinni hálfleik og ljóst að Andorra vildi ekki taka neina sérstaka áhættu til að jafna metin. Aron var tekinn af velli eftir klukkutíma leik og Rúnar Már Sigurjónsson kom inn í hans stað. Aron fékk strax klaka á hægra hnéð og allt kapp verður lagt á að hann verði tilbúinn aftur gegn Frökkum á mánudag. Um miðjan seinni hálfleik átti Jóhann Berg frábæran skalla rétt framhjá marki Andorra.

Viðar Örn Kjartansson kom svo inn í stað Alfreðs þegar 20 mínútur voru eftir og var ekki lengi að minna á sig. Hann jók muninn í 2:0 með frábæru, viðstöðulausu skoti úr teignum eftir fyrirgjöf Birkis Más frá hægir. Viðar kom seinna en aðrir inn í hópinn í vikunni enda að ganga frá sínum félagaskiptum til Hammarby, en þetta er hans fyrsta verkefni eftir að hann kvaðst hættur í landsliðinu í haust. Kjartan Henry Finnbogason skaut á Viðar á Twitter, fannst greinilega eitthvað athugavert við að Viðar skyldi hætta við að hætta við, og Selfyssingurinn svaraði Kjartani með léttum hætti þegar hann fagnaði markinu. Þetta var fyrsta mark Viðars í mótsleik með landsliðinu og hans þriðja landsliðsmark.

Þetta var fyrsti sigur Íslands undir stjórn Erik Hamrén og jafnframt fyrsti sigur liðsins síðan í janúar á síðasta ári, eða eftir 15 leiki af jafnteflum og töpum. Frammistaðan gefur fínan byr í seglin fyrir komandi átök í undankeppninni þó að allir viti að næstu andstæðingar séu eins illviðráðanlegir og þeir gerast.

Uppfærist sjálfkrafa meðan leikur er í gangi

Allar lýsingar í beinni

Andorra 0:2 Ísland opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með 2:0-sigri íslenska liðsins og Íslands hefur því leik í undankeppni EM á sigri, líkt og undanfarin ár.
mbl.is