Í fyrsta skipti orðin alvöru kempa

Fanndís tekur á móti blómvendi frá Borghildi Sigurðardóttur sem er …
Fanndís tekur á móti blómvendi frá Borghildi Sigurðardóttur sem er í stjórn KSÍ. Ljósmynd/KSÍ

Hin 29 ára gamla Fanndís Friðriksdóttir úr Val lék tímamótaleik með íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu í Chuncheon í Suður-Kóreu í dag þegar S-Kórea og Ísland gerðu 1:1 jafntefli í síðari vináttuleik þjóðanna.

Þetta var 100. landsleikur Fanndísar og er hún níundi leikjahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi. Þær sem hafa spilað fleiri landsleiki eru: Katrín Jónsdóttir (133), Sara Björk Gunnarsdóttir (123), Margrét Lára Viðarsdóttir (119), Dóra María Lárusdóttir (114), Hólmfríður Magnúsdóttir (112), Þóra B. Helgadóttir (112), Hallbera G. Gísladóttir (104) og Edda Garðarsdóttir (103).

Fanndís lék sinn fyrsta landsleik á móti Dönum í Algarve-bikarnum í mars 2009 og í leikjunum 100 sem hún hefur nú spilað hefur Fanndís skorað 15 mörk.

„Ég er mjög stolt af því að hafa náð þessum áfanga og það er ekki amalegur hópur sem ég er komin í. Maður er kannski í fyrsta skipti orðin alvöru kempa. Það hvarlaði aldrei að mér að ég myndi ná að spila 100 leiki fyrir Íslands hönd en það var kannski fyrr en maður var komin í 97 leiki að þá fór maður að hugsa um að geta náð 100 leikjum. Ég er bara að verða 29 ára gömul og það eru ennþá fullt af kerlingum sem eru ennþá í þessu sem eru góðar fyrirmyndir fyrir mann og ég held að ég geti alveg haldið áfram eitthvað lengur,“ sagði Fanndís í samtali við mbl.is.

Kang Chae-rim og Fanndís Friðriksdóttir í leiknum í dag.
Kang Chae-rim og Fanndís Friðriksdóttir í leiknum í dag. AFP

Fanndís og stöllur hennar í landsliðinu geta borið höfuðið hátt eftir þessa tvo leiki við S-Kóreu sem er í 14. sæti á heimslistanum og er á leið í úrslitakeppni HM í sumar. Ísland vann fyrri leikinn 3:2 og gerði 1:1 jafntefli í dag.

„Við erum bara virkilegar ánægðar með úrslitin og spilamennskuna í þessum tveimur leikjum. Það vantaði marga sterka leikmenn í okkar lið sem hafa verið lykilmenn í liðinu lengi. Við getum því gengið stoltar frá þessum tveimur leikjum. Auðvitað er alltaf hægt að gera einhverja hluti betur en svona leikir eru til þess að bæta sig,“ sagði Fanndís.

Aðstæðurnar í Chuncheon í dag voru ekki eins góðar og í Yong­in á laugardaginn þar sem liðin áttust við.

„Það var gott veður og grænn og fínn völlur í fyrri leiknum en í dag var töluvert kaldara og það var íslensk veðurfar og aðstæður. Það rigndi og það blés töluvert og völlurinn var gulur og harður,“ sagði Fanndís, sem náði ekki að skora í 100. leiknum sem hún hefði örugglega kosið að gera.

„Það hefði ekki verið verra að skora í þessum tímamótaleik. Ég fékk eiginlega aldrei nein tækifæri til þess. Ég var óheppin hvernig boltinn datt fyrir mig þegar Berglind skaut í slána. Ég var kannski alveg nóg fljót að kveikja á perunni og á tánum. En það þýðir ekkert að hugsa út í það. Þetta var skemmtileg og frábær upplifun að taka þátt í þessum leikjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert