„Saman í þessu allir sem einn“

Frá leiknum á Akranesi í dag.
Frá leiknum á Akranesi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vissum að Stjarnan myndu mæta grimmir hérna til leiks og við vitum að þeir eru öflugir í föstum leikatriðum og hafa sýnt það í gegnum tíðina. En það sem maður er sáttastur við er hvernig liðið í heild sinni brást við áhlaupi þeirra eftir fyrra markið. Þeir nýttu löng innköst, horn og aukaspyrnur til þess að koma boltanum inn á teiginn hjá okkur, en við vörðumst því alveg frábærlega, allir sem einn,“ segir Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari toppliðs ÍA, sem sigraði Stjörnuna 2:0 á heimavelli sínum í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Hann var afar ánægður með varnarleik sinna manna í kvöld.

„Við erum ansi vel skipulagðir í varnarleiknum, strákarnir eru ansi öflugir í að verjast háum og löngum boltum þannig að við reyndum að skalla þetta allt frá markinu okkar og það heppnaðist vel, við vorum ótrúlega öflugir í að vinna fyrsta og annan boltann, sem að varð til þess að Stjarnan skapaði sér sárafá færi í þessum leik.“

Bjarki Steinn Bjarkason, sem hefur verið öflugur hlekkur í liði ÍA það sem af er sumri, fór meiddur af velli á 27. mínútu leiksins. Jóhannes Karl segir Bjarka hafa verið stífan í mjöðm og nára að undanförnu og að það hafi versnað er leið á leikinn.

„Ég veit ekki hversu slæmt það er, vonandi ekki mjög slæmt,“ segir Jóhannes.

Maður kemur í manns stað

Steinar Þorsteinsson kom inn á leikvöllinn í stað Bjarka Steins og skilaði heldur betur sínu, lagði upp fyrra markið og gulltryggði svo sigur Skagamanna með marki í uppbótartíma. Jóhannes Karl segist ánægður fyrir hans hönd.

„Við erum með öflugan hóp og það kemur alltaf maður í manns stað og strákarnir sem hafa verið fyrir utan hóp og á bekknum, ekki í byrjunarliðinu, hafa sýnt alveg einstakt hugarfar. Við erum saman í þessu allir sem einn, þetta er langt tímabil og við þurfum á öllum að halda og það er frábært fyrir Steinar að standa sig svona vel þegar hann kom inná,“ segir Jóhannes Karl.

Byrjun Skagamanna hefur komið mörgum á óvart, en þeir sitja sem áður segir á toppi deildarinnar með 16 stig eftir 6 leiki, þrátt fyrir að vera búnir að leika gegn mörgum af þeim liðum sem spáð var toppbaráttu í sumar. Kemur það Jóhannesi á óvart að vera búinn að ná svona mörgum stigum í sarpinn?

„Við fengum erfitt prógram til að byrja með og kannski var það bara fínt fyrir okkur. En þetta kemur ekkert á óvart þegar maður horfir til baka á alla leikina sem við vorum að spila. Fyrirfram, ef ég hefði verið spurður, hefði ég kannski ekki alveg búist við þessu gengi, en við erum bara að fara í hvern einasta leik, einn leik í einu og höfum trú á því að við getum unnið þá. Það hefur ekki komið mér á óvart, eftir þessa leiki, að við skulum vera búnir að vinna þá alla,“ segir Jóhannes Karl.

Jóhannes Karl Guðjónsson og hans menn eru á toppi deildarinnar …
Jóhannes Karl Guðjónsson og hans menn eru á toppi deildarinnar með 16 stig eftir 6 umferðir. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert