Galið að leikmenn fái líflátshótanir

Ísland vann frábæran 2:1-sigur á Tyrklandi í kvöld. Aðdragandi leiksins …
Ísland vann frábæran 2:1-sigur á Tyrklandi í kvöld. Aðdragandi leiksins var ansi óvenjulegur. mbl.is/Hari

„Nei, því þetta er eitthvað sem við áttum engan þátt í. Við einbeittum okkur bara að fótboltanum. Það er okkar vinna,“ sagði Erik Hamrén, þjálfari karlalandsliðs Íslands í fótbolta, aðspurður hvort hann hefði á einhvern hátt nýtt fjandsamleg ummæli stuðningsmanna tyrkneska landsliðsins til að undirbúa sitt lið fyrir 2:1-sigurinn á Tyrklandi í kvöld.

Hluti stuðningsmanna tyrkneska liðsins hefur angrað Íslendinga mjög á samfélagsmiðlum síðustu tvo sólarhringa, með hótunum, í kjölfar þess að leikmenn Tyrklands kvörtuðu undan því sem þeir töldu vera ósanngjarna meðferð við komuna til Íslands á sunnudag. Fannst leikmönnunum of langan tíma taka að komast í gegnum öryggisleit á Keflavíkurflugvelli. Ekki bætti svo úr skák misheppnað grín belgísks manns sem þóttist taka viðtal við fyrirliða Tyrklands með uppþvottabursta á flugvellinum.

Hamrén var hikandi þegar hann var spurður út í þessi mál á blaðamannafundi í kvöld, og hvort hann hefði nýtt þau til að hafa hvetjandi áhrif á sína leikmenn, en sagði svo:

„Ég veit ekki hvort ég ætti að tjá mig um þetta, en mér fannst það sorglegt að heyra í gær, að margir landsliðsmanna Íslands, ekki bara úr karlalandsliðinu heldur líka úr kvennalandsliðinu og jafnvel U17-landsliðum, hefðu fengið hótanir. Þá þykir mér veröldin orðin galin. Leikmennirnir eiga engan þátt í þessu, eru algjörlega saklausir, en fá svo líflátshótanir. Þá finn ég til með fólki og finnst þetta orðin galin veröld. En við notuðum þetta ekki neitt í okkar undirbúningi. Hann snerist bara um fótboltann,“ sagði Hamrén.

Erik Hamrén sendir Hörð Björgvin Magnússon inn á völlinn gegn …
Erik Hamrén sendir Hörð Björgvin Magnússon inn á völlinn gegn Tyrkjum í kvöld. mbl.is/Hari
mbl.is