Fyrrverandi leikmaður Grindavíkur skoraði gegn Frökkum

Thaisa fagnar jöfnunarmarki sínu gegn Frökkum í gær.
Thaisa fagnar jöfnunarmarki sínu gegn Frökkum í gær. AFP

Hin brasilíska Thaisa de Moraes Rosa Moreno var á skotskónum í gær þegar Brasilía féll úr leik í sextán liða úrslitum HM kvenna í knattspyrnu sem fram fer í Frakklandi eftir tap gegn Frökkum. Leiknum lauk með 2:1-sigri franska liðsins í framlengdum leik á Océane-vellinum í Le Havre en Valerie Gauvin kom franska liðinu yfir á 52. mínútu áður en Thaisa jafnaði metin fyrir Brasilíu á 63. mínútu.

Það var svo Amadine Henry sem tryggði Frökkum sigur með marki á 106. mínútu og Frakkar fóru áfram í átta liða úrslitin. Thaisa lék með Grindavík í úrvalsdeild kvenna, sumarið 2017 en hún kom til félagsins ásamt samlanda sínum Rilany Aguiar da Silva frá Tyresjö í Svíþjóð. Thaisa lék sjö leiki fyrir Grindavík í efstu deild þar sem hún skoraði eitt mark en það kom í 2:1-sigri gegn Haukum í Grindavík.

Thaisa gekk til liðs við Sky Blue í bandarísku atvinnumannadeildinni árið 2018 frá Grindavík og lék átta leiki fyrir félagið áður en hún samdi við sitt núverandi félag, Milan, sem þá var nýstofnað en liðið leikur í ítölsku B-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert