Stór áfangi hjá Óskari Erni

Óskar Örn Hauksson leikur sitt sextánda tímabil í efstu deild …
Óskar Örn Hauksson leikur sitt sextánda tímabil í efstu deild og leikirnir eru nú orðnir 300. mbl.is/Hari

Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR-inga, náði rétt í þessum sögulegum áfanga, þegar viðureign KR og Stjörnunnar í úrvalsdeild karla í knattspyrnu hófst á Meistaravöllum í Vesturbænum.

Óskar spilar í kvöld sinn 300. leik í efstu deild hér á landi og hann er aðeins annar leikmaðurinn í sögu Íslandsmótsins sem afrekar það. Fimmtán ár eru síðan það gerðist í fyrsta og eina skiptið til þessa en Birkir Kristinsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður, spilaði sinn 300. leik í júlí árið 2004.

Birkir spilaði alls 321 leik í deildinni og Óskar á því möguleika á að slá met hans á næsta keppnistímabili.

Óskar Örn, sem er 34 ára gamall, leikur nú sitt sextánda tímabil í deildinni. Hann lék fyrstu þrjú árin, 2004 til 2006, með Grindavík en með KR frá 2007. Hann varð fyrr á þessu ári leikjahæstur KR-inga í deildinni, sló þá met Þormóðs Egilssonar og er nú kominn með 248 leiki, en áður lék Óskar 52 leiki með Grindvíkingum.

Áður hafði hann leikið 36 leiki með Njarðvíkingum og tekið þátt í að fara með þeim úr 3. deild í fyrstu deild á tveimur árum.

Þá er Óskar einu marki frá því að jafna félagsmet Ellerts B. Schram fyrir KR í efstu deild. Ellert skoraði 62 mörk fyrir félagið en Óskar er með 61 mark fyrir leikinn í kvöld og gæti því jafnað eða jafnvel slegið metið. Samtals hefur Óskar skorað 73 mörk í deildinni og er fjórtándi markahæstur í deildinni frá upphafi.

Tíu leikjahæstu leikmenn efstu deildar karla frá upphafi eru nú þessir:

321 Birkir Kristinsson
300 Óskar Örn Hauksson
294 Gunnar Oddsson
294 Gunnleifur Gunnleifsson
268 Kristján Finnbogason
267 Sigurður Björgvinsson
267 Atli Guðnason
264 Atli Viðar Björnsson
255 Guðmundur Steinarsson
254 Heimir Guðjónsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert