Staðráðnar í að spila þennan leik fyrir Sif

Jón Þór fagnar í leikslok.
Jón Þór fagnar í leikslok. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari kvennaliðsins í fótbolta, var afar kátur eftir 1:0-sigur á Slóvakíu í undankeppni EM 2021 á Laugardalsvelli í kvöld. Slóvakía gaf fá færi á sér, en Elín Metta Jensen skoraði sigurmarkið á 65. mínútu. 

„Ég er stoltur og ánægður af liðinu. Við héldum áfram og létum boltann ganga. Við sköpuðum okkur ekki jafn mikið af dauðafærum og á fimmtudaginn og við opnuðum Slóvakana ekki eins vel og við opnuðum Ungverjana en við héldum alltaf áfram og komum okkur í góðar fyrirgjafarstöður allan leikinn,“ sagði Jón í samtali við mbl.is. 

„Við þurftum að skerpa á ýmsu í hálfleik, eins og að koma með hlaup inn í teig og hafa meiri trú. Það vantaði herslumuninn á að klára fyrirgjafirnar, en við höfðum alltaf trú á þessu og það skilaði sér í seinni hálfleik.“

Hann segir markmið slóvakíska liðsins hafa verið að verja mark sitt og þær voru tilbúnar að vera grófar til þess. 

„Slóvakarnir komu hingað til að verja mark sitt og berjast með kjafti og klóm og þær eru agaðar og skipulagðar. Þær hafa verið að ná fínum úrslitum og fengið lítið af mörkum á sig. Þær hafa fengið eitt mark á sig síðustu þrjá leiki. Það var ljóst að það biði okkar erfitt verkefni.

Oft á tíðum grófar og dómarinn ekki með tök

Þær hika ekki við að brjóta þegar þær eru að gefa færi á skyndisóknum eða við vorum að komast í yfirtölu, þá eru þær góðar og agaðar í að brjóta. Þær eru oft á tíðum grófar og mér fannst dómarinn ekki hafa góð tök á þessu og leyfa þeim að komast upp með það. Við stjórnum því ekki og við héldum alltaf áfram.“

Sif Atladóttir lék ekki með liðinu, þar sem Atli Eðvaldsson faðir hennar lést fyrr í dag. Jón segir daginn hafa verið erfiðan fyrir liðið og er hann þeim mun stoltari að ná í sigur.

„Hann hefur verið það. Hugur okkar er búinn að vera hjá Sif. Hún er frábær félagi, liðsfélagi og náinn vinur margra í liðinu. Margir leikmenn í liðinu eru búnir að spila lengi með henni og þetta hefur verið erfitt. Ég er því hrikalega stoltur af því hvernig liðið kláraði þetta verkefni með einbeitingu.

Þær voru staðráðnar í að spila þennan leik fyrir Sif og fylgja þeim gildum sem hún stendur fyrir. Þær gáfust aldrei upp og voru tilbúnar til að bakka hver aðra upp, eins og Sif spilar. Ég veit þetta var mjög erfitt fyrir margar og því er frábært að ná í þennan sigur,“ sagði Jón Þór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert