Stórsigur á Lettum við skelfilegar aðstæður

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir átti mjög góðan leik sem hægri bakvörður …
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir átti mjög góðan leik sem hægri bakvörður Íslands í leiknum og lagði upp tvö mörk. AFP

Ísland og Svíþjóð eru efst í F-riðli undankeppni EM kvenna í fótbolta eftir þrjár umferðir, bæði með fullt hús stiga. Ísland vann öruggan sigur á botnliði Lettlands í Liepaja í kvöld, 6:0.

Vallaraðstæður á Daugava-leikvanginum voru varla boðlegar fyrir grunnskólakrakka í frímínútum, hvað þá landsleik í undankeppni stórmóts. Völlurinn var blautur, þungur og mjög skemmdur, og hafði það mikil áhrif á leikinn. Íslenska liðið lét það þó ekki slá sig út af laginu og hafði fulla stjórn á leiknum frá fyrstu mínútu.

Fanndís Friðriksdóttir skoraði fyrsta mark leiksins á 17. mínútu, með góðum skalla í slá og inn eftir frábæra fyrirgjöf Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur sem lék vel sem hægri bakvörður í leiknum.

Dagný Brynjarsdóttir, klædd hlífðargrímu vegna nefbrots, jók muninn með skalla af fjærstöng eftir aukaspyrnu Hallberu Guðnýjar Gísladóttur. Fanndís bætti svo við sínu öðru marki og þriðja marki Íslands beint úr hornspyrnu í blálok fyrri hálfleiks.

Elín Metta Jensen skoraði sitt fjórða mark í undankeppninni þegar hún kom Íslandi í 4:0 snemma í seinni hálfleik. Áfram sótti Ísland en slakaði aðeins á klónni og lettneska liðið átti sína einu hættulegu tilraun í leiknum þegar aukaspyrna Olgu Sevcova fór í þverslána og yfir.

Alexandra Jóhannsdóttir lék sinn fyrsta mótsleik fyrir Ísland og átti nokkrar góðar marktilraunir áður en hún skoraði svo sitt fyrsta landsliðsmark tæpum tíu mínútum fyrir leikslok, með föstu skoti hægra megin úr teignum.

Leikurinn virtist vera að fjara út en áður en honum lauk var Jón Þór Hauksson landsliðsþjálfari rekinn upp í stúku fyrir kjaftbrúk. Hann mótmælti kolröngum dómi Vivian Peeters dómara leiksins, sem dæmdi aukaspyrnu á Gunnhildi Yrsu úti við hliðarlínu þegar hún hafði aðeins rennt sér í boltann en ekki andstæðinginn.

Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði svo sjötta mark leiksins, eftir að hafa komið inn á sem varamaður, í blálok leiksins eftir fyrirgjöf Gunnhildar Yrsu.

Ísland leikur næst í apríl þegar liðið sækir Ungverjaland og Slóvakíu heim, en liðið fær svo Lettland og Svíþjóð í heimsókn í júní næsta sumar.

Lettland 0:6 Ísland opna loka
90. mín. Renāte Fedotova (Lettland) á skot sem er varið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert