Benítez hafnaði honum - kominn til Grindavíkur

Mackenzie Heaney í búningi Grindavíkur.
Mackenzie Heaney í búningi Grindavíkur. Ljósmynd/umfg.is

Grindvíkingar hafa fengið til sín skoska knattspyrnumanninn Mackenzie Heaney en hann kemur til þeirra í láni frá Whitby Town sem leikur í sjöundu efstu deild á Englandi.

Heaney er 21 árs gamall miðjumaður sem lék með yngri landsliðum hjá bæði Skotlandi og Englandi og ólst upp hjá Newcastle en þar þótti hann með efnilegustu strákum fyrir nokkrum árum, og lék m.a. við hliðina á bræðrunum Sean og Matty Longstaff sem hafa leikið með aðalliði Newcastle að undanförnu.

Heaney komst hinsvegar ekki á atvinnusamning eftir að hafa spilað með U23 ára liði Newcastle og Rafael Benítez, þáverandi knattspyrnustjóri félagsins, leysti hann undan samningi árið 2018. Hann lék um skeið með Newcastle Benfield og West Auckland, var til reynslu hjá Norwich án þess að fá samning, en samdi síðan við Whitby Town í vor.

Hjá Grindavík þekkir Heaney einn leikmann en Hilmar McShane lék við hlið hans með yngri landsliðum Skotlands fyrir nokkrum árum.

mbl.is