Annað markið leit skringilega út

Jónatan Ingi Jónsson og Höskuldur Gunnlaugsson á harðaspretti í Kópavoginum …
Jónatan Ingi Jónsson og Höskuldur Gunnlaugsson á harðaspretti í Kópavoginum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er svekktur því við hefðum klárlega átt að vinna þennan leik,“ sagði Kristinn Steindórsson, leikmaður Breiðablik, í samtali við mbl.is eftir 3:3-jafntefli liðsins gegn FH í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Kópavogsvelli í kvöld.

„Undir eðlilegum kringumstæðum þá hefðu þrjú mörk á heimavelli átt að duga til sigurs en það gerði það ekki í kvöld. Við vorum með stjórn á leiknum fannst mér, heilt yfir, þótt það hafi tekið okkur smá tíma að komast inn í þetta. Þegar að þeir skora sitt annað mark þá komast þeir aftur inn í þetta en við erum samt sem áður með stjórn á leiknum mest allan tímann.

Þótt við séum hins vegar með fulla stjórn á leikjunum verðum við að halda einbeitingu allan tímann. Við megum við ekki bjóða upp á svona klaufamörk eins og við fengum á okkur og vítaspyrnu eins og við fáum á okkur. Við þurfum að halda aðeins betri fókus í báðum vítateigum og þá erum við í fínum málum.“

Kristinn var ekki sáttur með annað mark Hafnfirðinga en hann vildi meina að boltinn hefði verið farinn aftur fyrir endamörk áður en Jónatan Ingi nær að pota honum til Atla Guðnasonar sem skoraði af stuttu færi.

„Ég set spurningarmerki við annað markið þeirra sem skýtur þeim inn í leikinn. Þetta er atvik sem maður þarf kannski að sjá aftur áður en maður fer að tjá sig eitthvað meira en þetta var sérstakt og leit skringilega út. Að sama skapi hefðum við líka mátt gera betur í mörkunum sem við fengum á okkur en það er eitthvað sem á að vera hægt að laga.“

Kristinn var að skora gegn sínum gömlu liðsfélögum í FH en Breiðablik er með tveggja stiga forskot á toppi deildarinnar eftir leik kvöldsins.

„Það er alltaf gaman að skora, sama á móti hverjum þú ert að spila og mark er mark. Við þurfum að halda áfram að byggja ofan á það góða sem við höfum verið að gera. Við erum áfram taplausir en við þurfum að einbeita okkur að því að taka þrjú stig í staðinn fyrir eitt og þá erum við í góðum málum,“ bætti Kristinn við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert