Bjartsýnn á að Íslandsmótið klárist

Guðni Bergsson
Guðni Bergsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, er bjartsýnn á að hægt verði að klára Íslandsmótið en hlé hefur verið gert á mótinu eftir hertar aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirunnar.

„Við verðum að gera okkar besta, passa upp á að þetta fari ekki lengra og ná tökum á faraldrinum,“ sagði Guðni í samtali við útvarpsþátt fótbolta.net á útvarpsstöðinni X977. Öllum leikjum eldri flokka á vegum KSÍ hefur verið frestað til 5. ágúst hið minnsta en yfirvöld biðluðu til íþróttahreyfingarinnar um að gera tímabundið hlé á öllum keppnum. Guðni er þó bjartsýnn á að mótið klárist.

„Ég er bjartsýnn á að við klárum mótið en við erum líka búin að kveða á um það að við getum ákveðið úrslit þó að við klárum ekki hundrað prósent leikja,“ sagði Guðni og bætti því við að það væri varaáætlun að spila fram í nóvember.

mbl.is