Ekki mikið á milli þessara liða í dag

Arnar Grétarsson þjálfari KA.
Arnar Grétarsson þjálfari KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég er svekktur að tapa. Markið sem við fáum á okkur var í ódýrari kantinum. En svoleiðis er fótboltinn. Menn gera mistök og þau settu okkur í erfiðari stöðu,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari KA-manna eftir 1:0 tap gegn Val í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu.

Um leikinn sjálfan sagði Arnar:

„Valur var meira með boltann í fyrri hálfleik en þær stöður sem Valsliðið komst í var yfirleitt  þegar við vorum að reyna að spila út og töpuðum í tvígang boltanum illa. Við vorum sjálfum okkur verstir í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik fannst mér menn stíga upp og setja smá pressu á Valsliðið en það vantaði herslumuninn að klára. Við vorum að spila oft vel út úr pressunni frá Val og á endanum féllu þeir til baka. Auðvitað hefði maður viljað fá jöfnunarmarkið. Það hefði ekki verið ósanngjarnt en staðan er 1:0 og við verðum að bíta í það súra epli,“ sagði Arnar eftir leik.

Leikurinn var nokkuð lokaður í dag og kannski ekki mikið fyrir augað, en Valsmenn fengu sín bestu færi í fyrri hálfleik, sér í lagi er Sigurður Egill Lárusson skot í stöng rétt utan teigs.

„Í seinni hálfleik var ekki mikið um opnanir. En við vorum oft að komast í ákjósanlegar stöður til að búa til færi. Helling af krossum og hornspyrnum. Það vantaði herlsumuninn en ég ánægður með baráttuna í mönnum, dugnaðinn og vinnusemina. Það er eitthvað sem hægt er að byggja á,“ sagði Arnar

Spurður hvort önnur kórónuveirupásan hafi haft áhrif á gæði leiksins sagði Arnar að vissulega hefði tveggja metra reglan haft áhrif á liðin.

„Auðvitað er það þannig að þeir sem hafa verið fara eftir tveggja metra reglunni og spilað fótbolta þannig; það hlýtur að bitna á liðunum. Þú getur auðvitað gert ákveðna hluti, sendingaræfingar og hlaup en samkvæmt reglunum áttu ekki spila. Auðvitað getur verið að það sé ryð í mönnum. Það er ekkert óeðlilegt. En þetta var fínn fótboltaleikur, bæði lið að reyna að setja háa pressu og reyna að spila boltanum, en kannski ekki mikið fyrir augað fyrir þá sem vilja sjá mörk," sagði Arnar.

Arnar segir að uppleggið í dag hafi verið að taka þrjú stig. 

„Það var ekki mikið á milli þessara liða hér í dag. Það sýnir bara ef menn eiga topp dag þá geta menn sótt þrjú stig og það er bara næsta verkefni," sagði Arnar.

KA hefur 8 stig í 9. sæti deildarinnar og er tveimur stigum frá Gróttu í fallsæti. Spurður hvort hann hefði sett sér markmið fyrir KA-liðið sem hann tók við um miðjan síðasta mánuð sagði Arnar:

„Nei ekki eins og staðan er í dag. Markmiði númer eitt, tvö og þrjú er að safna nógu mörgum stigum til þess að koma okkur úr botnbaráttunni. Ég vil horfa hærra en það en það er fyrsta markmiðið og þannig er staðan í dag. Við erum við botninn og þurfum að koma okkur út úr þeirri baráttu með því að safna stigum en við erum ekkert að hugsa um neitt hærra en það núna. VIð höfum getu til þess að keppa við hvaða lið sem er á góðum degi," sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert