Þurfum að sýna að við erum bestir

Thomas Mikkelsen þrumar hér knettinum í þverslánna í leik Fjölnis …
Thomas Mikkelsen þrumar hér knettinum í þverslánna í leik Fjölnis og Breiðabliks í gær. Eggert Jóhannesson

„Ég er ánægður með sigurinn, ég hefði kannski getað skorað fleiri mörk en þetta snýst um að vinna,“ sagði Thomas Mikkelsen, framherji Breiðabliks, eftir 4:1-sigur á Fjölni í 15. umferð Pepsi Max-deildarinnar í knattspyrnu í gær.

Blikar skutu sér upp í annað sæti deildarinnar með sigrinum í Grafarvoginum en Mikkelsen skoraði sjálfur tvö mörk, það seinna var frábært. Daninn skoraði með viðstöðulausu skoti eftir fyrirgjöf frá Atla Hrafni Andrasyni. Hann hins vegar fór illa með nokkur önnur færi, slapp meðal annars einn í gegnum vörn Fjölnis en tókst ekki að skora. „Ég virðist bara skora úr erfiðu færunum! Óskar sagði við mig að þetta snerist bara um einbeitingu, ég skora meira næst vonandi.“

Blikar hafa nú unnið fjóra leiki í röð eftir að hafa ekki unnið í fimm leikjum þar á undan. Mikkelsen segir Kópavogsliðið einfaldlega spila betur núna. „Við erum að spila betur, finnst mér. Erum fullir sjálfstrausts en það eru erfiðir leikir fram undan og þá dugar ekki að spila bara vel, við þurfum að sýna að við erum bestir.“

Daninn er nú kominn með 12 deildarmörk þegar Blikar eiga tíu leiki eftir. Hann er markahæstur í deildinni og segist auðvitað stefna á gullskóinn, þótt það skipti ekki öllu máli svo lengi sem Blikar vinna leikina sína. „Auðvitað ætla ég að reyna við gullskóinn en ég hugsa ekki sérstaklega um það eða markametið. Aðalatriðið er að við vinnum leiki og svo skulum við sjá til eftir tímabilið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert