Liðböndin í ökklanum eru vel teygjanleg

Hólmfríður Magnúsdóttir á fleygiferð í sumar.
Hólmfríður Magnúsdóttir á fleygiferð í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Selfyssingar hrukku í gang á ný og unnu 5:0-stórsigur á KR í Frostaskjólinu á laugardaginn í 14. umferð Pepsí Max-deildar kvenna í knattspyrnu. Blaðið varpar kastljósinu á Hólmfríði Magnúsdóttur eftir umferðina en hún fékk tvö M í einkunnagjöf blaðsins fyrir frammistöðuna. Hólmfríður haltraði af velli síðasta miðvikudagskvöld vegna ökklameiðsla en ökklinn var teipaður kirfilega og Hólmfríður átti stórleik gegn KR. Átti þátt í öllum fimm mörkum liðsins.

„Miðað við sársaukann sem ég fann þegar ég fór út af á móti Val bjóst ég alveg eins við því að ég yrði frá í nokkrar vikur. Eigum við ekki bara að segja að ég sé með vel teygjanleg liðbönd í ökklanum og sé fljót að ná mér,“ segir Hólmfríður og hlær þegar Morgunblaðið spyr hvort ekki hafi staðið tæpt að hún gæti yfirleitt spilað á móti KR. Á KR-vellinum þekkir Hólmfríður hverja þúfu og hvern hól (ef Magnús Böðvarsson vallarstjóri leyfir manni að nota það orðatiltæki um völlinn) því Hólmfríður skoraði 96 mörk fyrir KR í efstu deild. „Já, auðvitað. Mér finnst alltaf gaman að spila á KR-vellinum enda gerði ég það í mörg ár. Leikurinn var mjög skemmtilegur og gott fyrir liðið að fara inn í landsleikjahlé með sigur og eftir að hafa skorað fimm mörk.“

Selfoss tapaði heimaleikjum gegn Stjörnunni og Val áður en kom að leiknum á móti KR. Hvað gerði það að verkum að liðið small saman á laugardaginn og vann 5:0 eftir tvo tapleiki? „Þessi leikur var eiginlega upp á líf og dauða í deildinni. Ég sagði stelpunum að við þyrftum á sigri að halda. Eftir þvílíka leikjatörn þar sem við spiluðum fimm leiki á fjórtán dögum vissum við að það kæmi gott frí eftir þennan leik. Við gáfum allt í þetta, áttum fínan leik og gerðum þetta í sameiningu. Þegar út í leikinn var komið fannst mér við vera í betra líkamlegu standi en KR-ingarnir.“

Sjáðu viðtalið við Hólmfríði í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun ásamt úrvalsliði umferðarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »