Frammistaða Gylfa veldur stjóranum höfuðverk

Gylfi Þór Sigurðsson lék afar vel gegn Rúmeníu.
Gylfi Þór Sigurðsson lék afar vel gegn Rúmeníu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Adam Jones, blaðamaður Liverpool Echo, hrósar Gylfa Þór Sigurðssyni í hástert fyrir frammistöðu sína gegn Rúmeníu í umspilinu um sæti í lokakeppni EM í fótbolta síðastliðinn fimmtudag. 

Gylfi skoraði bæði mörk Íslands í 2:1-sigri og átti stærstan þátt í því að tryggja Íslandi hreinan úrslitaleik gegn Ungverjalandi í næsta mánuði. 

„Hann var vægðarlaus í afgreiðslunum og gæðin leyndu sér ekki. Hann gæti nýst Everton vel á þessari leiktíð. Auðvitað dæmum við hann ekki aðeins fyrir landsleikina, en Ancelotti fylgdist vel með honum. 

Hann hefur byrjað virkilega vel á þessu tímabili eftir erfitt síðasta tímabil. Hann var jafnmarkahæstur á sínu fyrsta tímabili en hann átti í erfiðleikum, eins og allt liðið, tímabilið á undan,“ skrifar Jones m.a. um Gylfa. 

Everton fær erkifjendurna í Liverpool í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni næstkomandi laugardag og Jones segir að knattspyrnustjórinn Carlo Ancelotti eigi við jákvæðan hausverk að glíma vegna frammistöðu Gylfa. 

„Þetta er áhugaverður höfuðverkur. Fer Gylfi beint í byrjunarliðið? Eða kemur Gomes inn í liðið strax? Þetta er akkúrat höfuðverkurinn sem Ancelotti vill hafa,“ skrifar hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert