Smit hjá U21 árs landsliðinu

Frá æfingu íslenska U21-árs landsliðinu hinn 8. október síðastliðinn á …
Frá æfingu íslenska U21-árs landsliðinu hinn 8. október síðastliðinn á Víkingsvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leikmaður U21-árs landsliðs Íslands í knattspyrnu er með kórónuveiruna en það er fótbolti.net sem greinir frá þessu.

Leikmaðurinn er búsettur í Danmörku og greindist með veiruna við komuna til landsins en hann lék með U21-árs landsliðinu í 2:0-sigri Íslands gegn Lúxemborg í undankeppni EM á Emile Mayrisch-vellinum í Lúxemborg á þriðjudaginn síðasta.

Átta leikmenn frá dönskum liðum léku með 21-árs landsliðinu í þessum leik.

Leik Íslands og Ítalíu í undankeppni EM, sem fara átti fram á Íslandi síðasta föstudag, var frestað þar sem leikmenn ítalska liðsins greindust með veiruna.

Á meðan U21-árs landsliðið kom saman hér á landi voru bæði leikmenn og starfslið landsliðsins skimað í fjórgang að því er fram kemur í frétt fótbolta.net.

„Við eigum eftir að fá meiri upplýsingar um málið en við settum okkur í samband við öll félög leikmanna sem voru í þessum leik og vitum ekki til þess að annar sé smitaður aða neitt slíkt," sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, við Fótbolta.net í dag.

mbl.is