Hamrén skammaðist sín

Erik Hamrén hughreystir Ara Frey Skúlason í leikslok.
Erik Hamrén hughreystir Ara Frey Skúlason í leikslok. AFP

„Það eina jákvæða við þennan dag er að U21 er að öllum líkindum komið í lokakeppni EM,“ sagði Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Stöð 2 Sport eftir 4:0-tap íslenska liðsins gegn Englandi í Þjóðadeild UEFA á Wembley í London í kvöld.

Hamrén tók við íslenska landsliðinu í ágúst 2018 en hann tilkynnti það á dögunum að leikurinn gegn Englandi yrði hans síðasti sem þjálfari íslenska liðsins.

„Ég hef verið vonsvikinn áður sem þjálfari liðsins en ég skammaðist mín fyrir fyrri hálfleikinn hjá okkur í kvöld. Vissulega voru Englendingarnir góðir en við gerðum þeim allt of auðvelt fyrir.

Við mættum ekki til leiks og baráttan var hreinlega ekki til staðar í fyrri hálfleik. Í fyrsta markinu sem við fáum á okkur erum við hreinlega ekki mættir til að dekka mennina okkar.

Í öðru markinu er fullt af mönnum í kringum markaskorarann þeirra en þeir eru allir að horfa á boltann. Seinni hálfleikurinn var skárri en við vorum í vandræðum með ellefu menn inni á vellinum og það batnaði ekki eftir að við urðum tíu,“ sagði Hamrén.

Hamrén var að stýra sínum síðasta leik en hann ætlar að kveðja leikmennina síðar í kvöld.

„Ég hef ekki rætt við strákana eftir leikinn og ég mun gera það síðar í kvöld. Eins og staðan er núna er ég fyrst og fremst reiður og ég hef ekki náð að hugsa nægilega mikið um það að þetta hafi verið minn síðasti leikur,“ bætti Hamrén við í samtali við Stöð 2 Sport.

mbl.is