Heimir taki við landsliðinu

Guðlaugur Victor Pálsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson …
Guðlaugur Victor Pálsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson hafa ekki sungið sitt síðasta. Eggert Jóhannesson

„Erlendir þjálfarar hafa takmarkaða þekkingu á íslenskum fótbolta og umgjörðinni í kringum liðið. Það tæki því of langan tíma fyrir þá að setja sig inn í starfið. Á þessum tímapunkti þurfum við heimamann með mikinn metnað.“

Þetta segir Sigmundur Ó. Steinarsson, blaðamaður og rithöfundur, sem skráð hefur sögu landsliðanna og Íslandsmótsins í knattspyrnu, en Sunnudagsblað Morgunblaðsins fékk hann og Ólaf Inga Skúlason, spilandi aðstoðarþjálfara Fylkis og fyrrverandi landsliðsmann, til að rýna í Erik Hamrén-skeiðið hjá íslenska karlalandsliðinu og meta næstu skref hjá „gamla bandinu“.

– Hvern erum við að tala um?

„Heimi Guðjónsson, þjálfara Íslandsmeistara Vals. Hann býr að mikilli reynslu sem þjálfari, hefur náð frábærum árangri alls staðar sem hann hefur komið og er harður í horn að taka. Þannig myndum við í raun loka hringnum en Heimir tók á sínum tíma við FH-liðinu af Ólafi Jóhannessyni, þegar hann gerðist landsliðsþjálfari. Eins og við þekkjum þá gaf Ólafur mörgum þeim strákum sem nú eru í landsliðinu tækifæri á sínum tíma og lagði þannig grunninn að þessu frábæra liði.“

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals.
Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals. Eggert Jóhannesson


– Og mun Heimir svara kallinu?

„Ef farið er rétt að honum er ég ekki í nokkrum vafa um að hann muni svara kallinu. Heimir getur ekki farið að bíða í tvö til sex ár eftir sínu tækifæri.“

Sigmundur telur óráð að draga nafna hans Hallgrímsson aftur heim. „Þá væri verið að snúa klukkunni aftur á bak. Heimir Hallgrímsson gaf verkefnið frá sér og nú eiga aðrir að fá að spreyta sig.“ 

Risastór ákvörðun

Að áliti Ólafs Inga blasir ekki við hver eigi að taka við liðinu. „Það er risastór ákvörðun og ég er þakklátur fyrir að vera ekki í þeirri stöðu að þurfa að taka hana. Menn hljóta að þurfa að velta upp öllum hugsanlegum nöfnum og skoða vandlega þá sem helst koma til greina. Í mínum huga er mikilvægt að vinna áfram með sömu gildi og ég treysti KSÍ til að taka rétta ákvörðun, eins og sambandið hefur gert undanfarin ár.“

Velgengni liðsins hefur vakið heimsathygli á umliðnum árum og Ólafur Ingi er ekki í vafa um að margir þjálfarar komi til með að sýna starfinu áhuga. „Þetta er orðið mun stærra og eftirsóttara starf en það var.“

Hann fæst þó ekki til að nefna nein nöfn. „Ég er ekki búinn að garfa nógu vel í því hverjir eru lausir til að geta tekið afstöðu til þess.“

– Viltu frekar sjá íslenskan þjálfara en erlendan?

„Ekkert frekar. Liðinu hefur bæði gengið vel undir stjórn íslensks og erlendra þjálfara síðustu árin. Aðalatriðið er að fá reynslumikinn mann sem nýtur virðingar leikmannanna og að hann sé tilbúinn að vinna í þessu umhverfi og halda áfram á sömu braut og Lars, Heimir og Erik. Sú hugmyndafræði og leikstíll hefur fleytt okkur langt.“

Hefði viljað sjá Hamrén halda áfram

Sigmundur Ó. Steinarsson með bók sína um landslið karla sem …
Sigmundur Ó. Steinarsson með bók sína um landslið karla sem kom út 2014. Ómar Óskarsson


Sigmundur hefði viljað sjá Hamrén halda áfram. „Það hefði verið áhugavert að fylgjast með honum vinna áfram með þessum leikmönnum en ég held að allir geti verið sammála um að Hamrén var mjög óheppinn í undankeppni EM með meiðsli lykilmanna og annað. Því miður finnst mér umhverfið í kringum landsliðið orðið þannig, að það gekk ekki upp að Hamrén héldi áfram.“

Spurður nánar út í þetta svarar Sigmundur: „Allir landsliðsþjálfarar vilja að sjálfsögðu nýta sína sterkustu menn en Hamrén fékk ekki alltaf nógu mikla hjálp frá KSÍ. Menn fengu alltof oft að taka sér frí frá verkefnum, sem bendir til þess að umgjörðin í kringum landsliðið sé of veik. Leikmenn eiga ekki að velja sér leiki, það er þjálfarans að taka þá ákvörðun. Kalla menn til liðs við hópinn og láta fagmenn meta þá ef þeir eru meiddir. Í raun má segja að við séum komin þrjá til fjóra áratugi aftur í tímann hvað þetta andrúmsloft varðar,“ segir Sigmundur og nefnir landsleik Íslands og Sovétríkjanna á Laugardalsvellinum í undankeppni HM haustið 1980 en þá komust sjö af átta atvinnumönnum þjóðarinnar ekki í leikinn vegna álags hjá félagsliðum sínum, aðeins Örn Óskarsson, sem lék með Örgryte í Svíþjóð, átti heimangengt. 

Ólafur Ingi Skúlason lék 36 landsleiki fyrir Íslands hönd.
Ólafur Ingi Skúlason lék 36 landsleiki fyrir Íslands hönd. Haraldur Jónasson/Hari


Kom okkur þó þetta langt

Ólafur Ingi segir árangur Hamréns með landsliðið ágætan ef Þjóðadeildin er tekin út fyrir sviga. „Hefði okkur fyrirfram verið boðinn hreinn úrslitaleikur við Ungverja um sæti á EM þá hefðum við örugglega þegið það með þökkum. Hamrén skilaði sínu verki en eftir mörg góð ár þá lenti hann í talsvert meiri hremmingum og þurfti að eiga við meiri áföll en forverar hans, Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson, meðal annars vegna tíðra meiðsla lykilmanna. Af þeim sökum voru menn ekki í sama formi og áður og þegar komið er á þetta getustig í fótbolta þá getur reynst erfitt að ná árangri ef allir eru ekki 100% heilir. Þess vegna á Hamrén hrós skilið fyrir að koma okkur þó þetta langt; það munaði bara örfáum mínútum að við kæmumst á EM,“ segir hann. 

Ólafur Ingi segir ekkert annað í stöðunni en að virða ákvörðun Hamréns um að hætta með liðið; hann hljóti að meta það svo að hann hafi náð því sem hann gat út úr liðinu. Spurður hvort hann telji líklegt að KSÍ hafi beitt Hamrén þrýstingi svarar Ólafur Ingi: „Ég hef ekki hugmynd og ætla ekki að reyna að geta mér til um það.“

Bæði Sigmundur og Ólafur Ingi eru bjartsýnir á gengi landsliðsins í undankeppni HM sem hefst næsta vor. Liðið eigi enn töluvert inni. 

Nánar má lesa um málið í fréttaskýringu Sunnudagsblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »