Skilar sér inn í landsliðið

Hallbera Guðný Gísladóttir á að baki 118 A-landsleiki og er …
Hallbera Guðný Gísladóttir á að baki 118 A-landsleiki og er fjórða leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessir tveir leikir leggjast mjög vel í mig,“ sagði Hallbera Guðný Gísladóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á Teams-blaðamannafundi íslenska liðsins í gær.

Ísland mætir Írlandi í tveimur vináttuleikjum, á morgun annars vegar og svo 15. júní hins vegar, en báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.

„Við erum ekki búnar að spila jafn marga leiki á þessu ári og undanfarin ár. Það hefur gengið á ýmsu og það er þess vegna virkilega gaman að koma aðeins heim á þessum tímapuntki.

Ég á von á erfiðum leikjum gegn sterku liði sem er mjög líkamlega sterkt og ég held að þetta sé mjög góður undirbúningur fyrir undankeppni HM sem hefst í september,“ sagði Hallbera sem á að baki 118 A-landsleiki og er fjórða leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi.

Þorsteinn Halldórsson tók við þjálfun íslenska liðsins í janúar á …
Þorsteinn Halldórsson tók við þjálfun íslenska liðsins í janúar á þessu ári. mbl.is/Kris

Nýjar áherslubreytingar

Þorsteinn Halldórsson tók við þjálfun íslenska liðsins í janúar á þessu ári eftir að hafa þjálfað Breiðablik frá árinu 2015 en Ásmundur Haraldsson, sem var aðstoðarþjálfari Freys Alexanderssonar hjá kvennalandsliðinu frá 2013 til 2018, er aðstoðarþjálfari Þorsteins.

„Nýja þjálfarateymið hefur komið vel inn í þetta og áherslurnar eru ekki alveg þær sömu og þær hafa verið, undanfarin ár. Á sama tíma eru margar í hópnum sem þekkja Þorstein Halldórsson mjög vel, sem og Ásmund Haraldsson, þannig að umhverfið er mjög þægilegt að vinna í ef svo má segja.

Það er mjög gott að vinna með þeim báðum og mér finnst við vera að ná upp fínum takti í því sem þeir vilja að við gerum. Vonandi nýtist það okkur vel í haust þar sem bíða okkar mjög erfiðir leikir í undankeppninni.“

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir héldu báðar í atvinnumennsku …
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir héldu báðar í atvinnumennsku eftir síðasta tímabil líkt og fleiri leikmenn íslenska liðsins gerðu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gæðin meiri en oft áður

Ísland hefur leik í C-riðli undankeppni HM í september þegar liðið fær Evrópumeistara Hollands í heimsókn en íslenska liðið er með Hvíta-Rússlandi, Kýpur, Tékklandi og Hollandi í riðli.

„Við fáum enga leiki fram að undankeppninni og það er því gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem lið að slípa okkur vel saman í þessum tveimur leikjum.

Mér finnst ég finna mun á æfingum og gæðin eru meiri núna en oft áður, bæði þegar kemur að spili, sendingum og öðrum þáttum leiksins. Ég held að það sé að gera öllum leikmönnum gott að hafa tekið skrefið og farið í aðeins meira krefjandi umhverfi og þetta skilar sér klárlega inn í landsliðið.“

Hallbera lék með Val í þrjú tímabil áður en hún …
Hallbera lék með Val í þrjú tímabil áður en hún hélt aftur til Svíþjóðar og samdi við AIK. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sænska deildin sterkari

Hallbera gekk til liðs við nýliða AIK í sænsku úrvalsdeildinni í desember á síðasta ári en nýliðarnir hafa komið á óvart á tímabilinu og eru í áttunda sæti deildarinnar með 9 stig eftir átta leiki, sjö stigum frá fallsæti.

„Ég hef það rosalega gott í Svíþjóð og það áttu held ég flestir von á því að við sem nýliðar myndum fara beint niður aftur en þetta hefur gengið vel. Við höfum bæði verið að vinna og tapa leikjum en þetta er erfið deild að spila í og mjög jöfn.  

Ég held að það hafi verið mjög gott skref fyrir mig á þessum tímapunkti að fara til Svíþjóðar og breyta um umhverfi. Maður þarf að sinna meiri varnarvinnu þarna en með Val heima á Íslandi og það er gaman að geta einbeitt sér aðeins að því núna.

Ég veit ekki hvort það sé aldurinn en mér finnst deildin mun sterkari en þegar ég var þarna síðast árið 2017 með Djurgården. Þetta tekur meira á líkamlega en hingað til þá hef ég náð að skila mínu,“ bætti Hallbera við.

mbl.is