Setur leikinn við Val í annað samhengi

Óskar Örn Hauksson á skemmtilegu flugi í leik KR og …
Óskar Örn Hauksson á skemmtilegu flugi í leik KR og KA á Dalvík fyrr í sumar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Óskar Örn Hauksson fyrirliði KR var ánægður með að fá fréttir af tveimur stórum áföngum sem hann náði í 4:0-sigri Vesturbæinga á Fylki í kvöld og með leik liðsins sem yfirspilaði Árbæingana á löngum köflum á Meistaravöllum.

Undirritaður er á því að þetta hafi verið besti leikur KR-inga á tímabilinu og Óskar tók strax undir þá fullyrðingu.

„Já, ég er sammála því. Við vorum bara betri frá fyrstu mínútu og ég held að þeir hafi varla snert boltann fyrstu fimmtán mínúturnar. Miðað við gengið á heimavelli að undanförnu verðum við að vera ánægðir með að vinna 4:0 en við hefðum auðveldlega getað skorað sex til sjö mörk í kvöld. En við tökum þessi þrjú stig og þau koma okkur aftur í baráttuna,“ sagði Óskar við mbl.is.

Úrslitin þýða að KR-ingar eru komnir í seilingarfjarlægð við toppliðin Val og Víking, og geta gert heilmikinn skurk í baráttunni í næsta leik þegar þeir mæta Valsmönnum.

„Það er verið að gefa okkur endalaus tækifæri til að komast aftur inn í þetta mót og við höfum kannski ekki alveg verið að grípa þau hingað til. En við ætlum ekki að láta þetta tækifæri renna okkur úr greipum. Það var hellingur í boði fyrir okkur með sigri í dag og ég held að við höfum sýnt að okkur langaði í það.

Það er heilmikið eftir af þessu móti og þessi sigur okkar í kvöld setur leikinn okkar við Val í allt annað samhengi. Nú fer að síga á mótið og leikirnir að skipta enn meira máli,“ sagði Óskar.

Spurður um áfangana tvo sem hann náði í kvöld, þegar hann lék 400. deildaleikinn á ferlinum og skoraði 100. markið í deildakeppni, sagði Óskar að hann væri að sjálfsögðu afar ánægður með þá. Þetta væru góðar fréttir eftir góðan leik.

„Já, þetta rúllar bara áfram og bætist alltaf við! Ég byrjaði svo sem ungur, var ekki orðinn fimmtán ára þegar ég spilaði fyrsta meistaraflokksleikinn fyrir Njarðvík og ég hef bara verið í þessu síðan. Aldrei litið til baka.“ 

Óskar Örn Hauksson í leik með KR gegn Leikni fyrr …
Óskar Örn Hauksson í leik með KR gegn Leikni fyrr í sumar. mbl.is/Unnur Karen

Svo ertu búinn að spila síðustu 130 leiki KR í deildinni og ekki misst af leik frá 2015. Hvernig ferðu eiginlega að því?

„Ég veit það ekki, sennilega er þetta bara heppni. Ég fer vel með mig, fer vissulega í tæklingar en er kannski ekki mikið í þessum skítverkum. Ég hugsa vel um mig utan vallar og ég hef aldrei valið mér leiki. Mér finnst gaman í fótbolta, finnst gaman að spila leiki, og er alltaf klár ef ég er heill, sem ég er blessunarlega oftast, og þannig heldur maður taktinum,“ sagði Óskar Örn Hauksson.

mbl.is