„Ég er með fullkomið tækifæri fyrir þig“

Bandaríkjamaðurinn Kyle McLagan hefur spilað 28 deildarleiki með Fram á …
Bandaríkjamaðurinn Kyle McLagan hefur spilað 28 deildarleiki með Fram á einu og hálfu tímabili og aðeins tapað einum þeirra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framarar geta á morgun, laugardaginn 18. september, orðið fyrstir til að fara ósigraðir í gegnum 12-liða fyrstu deild karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Safamýrarliðið tekur á móti Aftureldingu á heimavelli í lokaumferðinni og geta Framarar þar bætt stigamet deildarinnar, sem þeir hafa nú þegar slegið. Í leikslok fer svo deildarbikarinn á loft.

Yfirburðir Fram í Lengjudeildinni hafa verið töluverðir í allt sumar. Þeir hafa, þegar einni umferð er ólokið, unnið 17 leiki og gert fjögur jafntefli, þar af tvö eftir að úrvalsdeildarsætið var í höfn. Liðið hefur skorað 52 mörk og fengið á sig aðeins 16, þar af aðeins fjögur í öllum ellefu útileikjum tímabilsins. Flest góð fótboltalið byrja á því að hafa trygga menn í öftustu línu. Einn þeirra í Safamýrinni er Bandaríkjamaðurinn Kyle McLagan, sem margir telja að sé jafnvel besti miðvörður deildarinnar.

McLagan þessi er frá Kansas í Missouri. Faðir hans er frá Skotlandi og spilaði á sínum tíma sem atvinnumaður en móðir hans er frá Bandaríkjunum og lék knattspyrnu sömuleiðis, í fyrstu deild í heimalandinu. „Ég var nokkuð seinn að blómstra, reyndi fyrst að gerast atvinnumaður í Bandaríkjunum, fór á reynslu til nokkurra félaga en af einhverri ástæðu þá gekk það ekki upp,“ segir hann í viðtali við blaðamann mbl.is sem hitti hann í Safamýrinni á dögunum.

„Ég vissi að möguleikinn á atvinnumennsku heima væri að fjara út, allavega um sinn. Þá fór ég að velta því fyrir mér hvort ég gæti komist til Evrópu.“

Að lokum samdi hann við danska félagið Roskilde og spilaði yfir 40 leiki. „Þar hjálpaði ég liðinu að halda sér uppi í B-deildinni. Þetta hefur verið ævintýri, ég kláraði mitt annað tímabil með Roskilde í júlí á síðasta ári vegna kórónuveirufaraldursins.“

Kyle McLagan
Kyle McLagan Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Að dvölinni lokinni í Danmörku var komið að næsta kafla í lífi Bandaríkjamannsins og bjó hann þá vel að því að hafa kynnst Íslendingi í heimalandinu. McLagan gekk í Furman-háskólann í Suður-Karólínu og stundaði þar nám með Arnóri Daða Aðalsteinssyni sem sjálfur er uppalinn í Fram.

Miðvörðurinn sem tapar ekki

„Ég hafði líka komið til Íslands áður, gisti hjá Steina sem hafði spilað með bróður mínum í Bandaríkjunum. Hann sagði mér auðvitað einhverjar sögur um fótboltann á Íslandi. Það fór svo þannig að ég sendi honum skilaboð, spurði hvort hann gæti hjálpað mér að komast að hjá liði á Íslandi.

Ég er með fullkomið tækifæri fyrir þig svaraði hann og eftir rúman sólarhring var búið að senda mér samning. Síðan fór ég með flugvél til Íslands, fór í sóttkví og byrjaði svo að spila.“

Eftir mögur ár í fyrstu deildinni voru Framarar skyndilega líklegir til afreka og í harðri baráttu um sæti í úrvalsdeild á síðasta ári. McLagan kom til landsins um mitt tímabil og fór rakleiðis í byrjunarliðið. Spilaði níu leiki og tapaði Framliðið aðeins einum þeirra, 1:2 gegn Grindavík á heimavelli. Að lokum var Íslandsmótið flautað af vegna kórónuveirunnar, þegar tvær umferðir voru enn óleiknar, og Fram sat eftir með sárt ennið, fyrir neðan næsta lið á markatölu.

Tapið örlagaríka gegn Grindavík, eins og blaðamaður og McLagan rifja upp, er enn þá eini tapleikur Bandaríkjamannsins í deildarkeppni hér heima í 28 leikjum. Þá hefur hann mátt þola tap í tveimur bikarleikjum af fjórum. Gegn ÍBV í fjórðungsúrslitum í fyrra og gegn Skagamönnum í sumar, þar sem hann kom inn sem varamaður.

Jón Þórir Sveinsson þjálfari tolleraður af leikmönnum eftir að Framarar …
Jón Þórir Sveinsson þjálfari tolleraður af leikmönnum eftir að Framarar tryggðu sætið í efstu deild. Það gerðu þeir með fimm leiki óleikna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Leikurinn gegn Grindavík, fengum á okkur sigurmark í uppbótartíma. Það var ótrúlega svekkjandi, sérstaklega í ljósi þess hvernig þetta endaði svo. Eitt stig þar hefði breytt öll. En sem betur fer þurfum við ekki að hugsa um það núna,“ rifjar hann upp. „Þetta var auðvitað sérstök staða, við vorum ekki vissir um hvort við færum upp um deild eða ekki.“

Framarar voru ósáttir með hvernig Íslandsmótinu lauk í fyrra, og stóð félagið meðal annars í eftirminnilegum málaferlum við Knattspyrnusambandið út af því, með enga aðra en KR-inga sem bandamenn. Áfrýjunardómstóll KSÍ vísaði að lokum máli Fram frá og var þá ekki annað í stöðunni en að hífa upp sokkana og byrja upp á nýtt. „Ég fór heim síðasta vetur og var rólegur yfir þessu. Mér leið vel í Fram og hugsaði með mér að fyrst við komumst ekki upp í fyrra þá gerum við það á næstu leiktíð,“ segir Kyle frá og telur hann aðra leikmenn innan hópsins hafa verið á sömu skoðun.

„Ég held að það hafi verið þegjandi samkomulag innan hópsins um að vera áfram og klára verkið. Okkur fannst við grátt leiknir í fyrra og hópurinn kom saman í vetur með því markmiðið að klára verkið í sumar.“

Ég vissi að við værum góðir

Að segja að Framarar, undir góðri og dyggri stjórn Jóns Þóris Sveinssonar, hafi klárað verkið er vægt til orða tekið. Fram tryggði sér sæti í efstu deild þegar fimm umferðir voru óleiknar og setti stigamet í síðustu umferð. Framarar eru með 55 stig og enda leiktíðina með 58, vinni þeir Aftureldingu á morgun. Áður náðu Víkingar í Ólafsvík í 54 stig árið 2015. Þá geta Framarar orðið fyrstir til að fara ósigraðir í gegnum tímabilið í fyrstu deild síðan sumarið 2005 er Breiðablik vann 13 leiki og gerði fimm jafntefli í tíu liða deild.

„Ég vissi að við værum góðir og að liðið yrði í baráttunni, en ég átti kannski ekki von á því að yfirburðirnir yrðu svo miklir. Við náðum okkur strax á flug og horfðum aldrei um öxl. Við undirbúum okkur vel fyrir hvern leik og skoðum andstæðinginn en þegar á botninn er hvolft vitum við að þetta snýst um okkur. Við vitum að ef við spilum okkar leik þá stöndum við okkur vel. Nonni hefur leyft okkur að njóta þess að spila fótbolta, hann hefur ekki verið að fikta of mikið í uppstillingunni eða leikskipulaginu.“ McLagan segist fullviss um að liðið sé nógu gott til að gera vel í efstu deild.

McLagan þykir einn besti miðvörður deildarinnar. Snöggur og sterkur í …
McLagan þykir einn besti miðvörður deildarinnar. Snöggur og sterkur í loftinu. Kristinn Magnússon

„Maður hefur alveg velt því fyrir sér, hvað þetta lið hefði gert í Pepsi-deildinni í sumar, hefðum við farið upp í fyrra. Ég hef trú á því að þetta lið verði samkeppnishæft í úrvalsdeildinni, tala nú ekki um ef við bætum við okkur einum eða tveimur góðum leikmönnum. Svo spilum við á nýjum leikvangi, við munum ekki vilja leyfa liðum að taka mörg stig þaðan,“ bætir hann við en Framarar eiga von á því að spila heimaleiki sína á nýjum leikvangi í Úlfarsárdal á næsta ári, eftir að hafa spilað í Safamýrinni undanfarin sumur.

Blaðamaður tekur eftir því að McLagan, sem er samningsbundinn félaginu út leiktíðina, talar um næstu leiktíð eins og það sé víst að hann verði áfram í Fram. „Ég er mjög bjartsýnn um að svo verði. En ég hef líka verið mjög skýr, gagnvart félaginu og Nonna, að ef mér býðst tækifæri til að gerast atvinnumaður þá myndi ég auðvitað vilja íhuga það. En akkúrat núna er ég í Fram og að hugsa um framtíðina þar.“

Að komast í atvinnumennsku er markmiðið hjá miðverðinum sem verður 26 ára í næsta mánuði. „Að spila í úrvalsdeildinni á Íslandi er frábær gluggi til að sýna sig og sanna, það er ekki óalgengt að menn fái tækifæri erlendis ef þeir spila vel þar. En aðalatriðið fyrir mig, sem knattspyrnumann, er að takast á við nýjar áskoranir. Næsta áskorun er úrvalsdeildin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert