Dómararnir eiga að vernda leikmennina

Brynjar Björn Gunnarsson fylgist með gangi mála af varamannabekk HK …
Brynjar Björn Gunnarsson fylgist með gangi mála af varamannabekk HK í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK sagði eftir sigurinn mikilvæga á Stjörnunni í kvöld, 1:0, í úrvalsdeild karla í fótbolta að sigurmarkið hefði komið á besta tíma í leiknum, eftir að HK-ingar voru orðnir manni færri.

„Þessi umferð var búin að vera full af dramatík svo við þurftum að halda því áfram í kvöld," sagði Brynjar Björn við mbl.is eftir leikinn og ljóst var að honum var mjög létt yfir því að vera kominn með 20 stig í stað 17 eða 18 fyrir síðustu umferð deildarinnar. HK komst með sigrinum uppfyrir ÍA og úr fallsæti.

„Fyrir utan stöðuna sem við erum í, þá var þetta hörkuleikur og við vissum að það yrði þannig. Stjörnumenn spila þannig fótbolta, þeir senda mikið af löngum sendingum fram völlinn og berjast svo um seinni boltann og við þurftum að vera jafnir ef ekki betri en þeir í því. Ég tel okkur hafa gert það.

Sennilega vorum við aðeins meira skapandi en þeir enda þótt það hafi ekki verið mikið um dauðafæri í leiknum. En við fengum þrjá til fjóra góða möguleika inni í vítateig í fyrri hálfleik og einhver skot fyrir utan. Þetta var langt frá því að vera opinn leikur en við fengum samt þessa möguleika.

Við vorum að talsverðu leyti með leikinn í okkar höndum, héldum Stjörnumönnum niðri og pressuðum við þeirra teig. Svo kom þetta rauða spjald, ég get ekki sagt núna hvort þetta hafi verið verðskuldað annað gult spjald á Birni. Mér fannst fyrra gula spjaldið líka ódýrt og ég segi alltaf það sama: Dómararnir eiga að vernda leikmennina, gefa gul og rauð spjöld fyrir grófan leik, en þegar menn fara útaf fyrir tvö svona ódýr spjöld þá finnst mér tilgangur spjaldanna ekki þjóna sér," sagði Brynjar Björn.

Ásgeir Börkur Ásgeirsson og Emil Atlason í leiknum í kvöld.
Ásgeir Börkur Ásgeirsson og Emil Atlason í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann tók undir það að sínir menn hefðu sýnt af sér mikinn karakter með því að skora sigurmarkið manni færri og standa síðan af sér pressu Stjörnumanna á lokakafla leiksins.

„Já þeir gerðu það, og markið kom á gríðarlega góðum tíma, svona strax eftir rauða spjaldið. Ef það hefðu liðið aðrar fimm til tíu mínútur þá hefðum við þurft að bakka meira og fengið á okkur meiri þrýsting frá Stjörnunni. Markið kom fljótt eftir að Birnir var rekinn útaf, á besta tíma, og okkur tókst að verjast þetta korter sem eftir var af leiknum, og fengu varla á okkur markskot á þeim tíma. Allt liðið vann sem ein heild í kvöld og menn unnu þetta hver fyrir annan.“

HK á framundan leik gegn Breiðabliki í lokaumferðinni á laugardaginn og gæti jafnvel þurft sigur þar til að tryggja sæti sitt í deildinni í slagnum við Keflavík og ÍA sem mætast á sama tíma.

Við þurftum þessi þrjú stig og á einhverjum tímapunkti strax eftir rauða spjaldið hugsaði ég sem svo að við mættum ekki tapa. Hvort sem þessi síðasti leikur væri gegn Breiðabliki eða einhverjum öðrum hefði það verið orðin mjög erfið staða ef þessi leikur hefði tapast. Stigin þrjú eru því kærkomin og gott að vera ekki í fallsæti fyrir síðustu umferðina. Ég  tel okkur eiga góða möguleika á að halda okkur uppi," sagði Brynjar Björn Gunnarsson.

mbl.is