Njarðvíkingar gjörsigruðu Keflvíkinga

Kenneth Hogg, til vinstri, skoraði fyrsta mark Njarðvíkinga í kvöld.
Kenneth Hogg, til vinstri, skoraði fyrsta mark Njarðvíkinga í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Njarðvíkingar, sem leika í 2. deild, fóru illa með nágranna sína í Keflavík í kvöld þegar liðin mættust í 32ja liða úrslitunum í bikarkeppni karla í fótbolta, Mjólkurbikarnum, á HS Orkuvellinum, heimavelli Keflvíkinga í Reykjanesbæ.

Lokatölur leiksins voru hreint ótrúlegar, 4:1 fyrir Njarðvíkinga, sem eru efstir í 2. deildinni eftir mjög góða byrjun þar og hafa unnið alla leiki sína á tímabilinu.

Skotinn Kenneth Hogg kom Njarðvík yfir strax á 3. mínútu leiksins og fyrrverandi Keflvíkingurinn Magnús Þórir Matthíasson bætti við marki seint í fyrri hálfleik. Patrik Johannesen minnkaði muninn í 2:1 með því að skora úr vítaspyrnu fyrir Keflvíkinga áður en flautað var til hálfleiks.

Magnús Þórir skoraði sitt annað mark um miðjan síðari hálfleik og belgíski framherjinn Oumar Diouck innsiglaði 4:1 sigurinn með marki í uppbótartíma leiksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert