Vissi að það myndi taka smá tíma að komast í gang

Jannik Poh fagnar hér sigurmarki sínu fyrir Fram í dag.
Jannik Poh fagnar hér sigurmarki sínu fyrir Fram í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Danski framherjinn Jannik Pohl skoraði sigurmark Fram gegn Leikni úr Reykjavík í Mjólkurbikarnum í knattspyrnu í Safamýrinni í dag. Daninn hefur komið við sögu í öllum sjö deildarleikjum Fram á tímabilinu en átti eftir að brjóta ísinn við markið.

„Það var svo góð tilfinning að skora fyrsta markið og borga félaginu aðeins til baka fyrir að hafa trú á mér. Mér fannst ég líka spila vel gegn Breiðabliki í síðasta leik, lagði upp mark þar,“ sagði Pohl í samtali við mbl.is strax að leik loknum en sigurmark hans kom í framlengingu eftir að Fram hafði misst niður tveggja marka forystu og fengið rautt spjald í venjulegum leiktíma.

Daninn er ánægður með að vera búinn að tryggja sæti í 16-liða úrslitunum. „Það er alltaf skemmtilegt að vera í bikarnum. Við erum nýliðar í Bestu deildinni og ekki að fara vinna hana. En bikarkeppnin er þess eðlis að öll lið eiga möguleika á að vinna hana, svo lengi sem þú ert með.

Þá segir Pohl að hann eigi nóg inni í sumar eftir að hafa skorað loks fyrsta markið. „Ég kom hingað í Fram eftir langt og erfitt meiðslatímabil. Ég vissi að það myndi taka mig smá tíma að komast í gang en mér finnst ég alltaf verða betri og betri.“

mbl.is