Varamarkmaður Blika með 125 mörk í efstu deild

Rakel Hönnudóttir í leik á móti KR árið 2020.
Rakel Hönnudóttir í leik á móti KR árið 2020. Eggert Jóhannesson

Rakel Hönnudóttir á 215 leiki í efstu deild kvenna og hefur skorað í þeim 125 mörk. Hún var í öðru hlutverki heldur en að skora þegar Breiðablik vann KR 5:0 í kvöld en hún var skráð sem varamarkmaður.

Breiðablik vann KR 5:0 í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöldi þegar liðið tók á móti KR á Kópavogsvelli.

Landsliðsmarkmaðurinn Telma Ívarsdóttir er meidd og í hennar stað fékk Breiðablik markmanninn Evu Nicole Person frá Piteå í Svíþjóð. Aníta Dögg Guðmundsdóttir, varamarkmaður Breiðabliks er farin út í skóla svo Breiðablik vantaði varamarkmann á skýrslu.

Þá var reynsluboltinn Rakel Hönnudóttir fengin í það hlutverk en hún hefur ekki spilað með liðinu síðan 2020 en hún var ólétt og missti af tímabilinu 2021 og er að koma sér aftur af stað. Ekki nóg með það þá er Rakel bara ekki markmaður eins og 125 mörk hennar á ferlinum gefa í skyn.

„Það er „statement“ hjá Rakel Hönnu að taka varamarkmanninn á sig," sagði Karitas Tómasdóttir tveggja marka kona í leik kvöldsins.

„Það styttist í Telmu en Rakel leynir á sér. Hún er alveg rosaleg á æfingum og spilar í marki á æfingum, ef þess þarf þá er hún alltaf tilbúin. Ég treysti henni fullkomlega ef til þess kemur og hún er hér til þess að aðstoða“ sagði Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks sem spilaði ekki vegna meiðsla.

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir vakti athygli á því að þetta er ekki í fyrsta skipti sem Rakel hefur tekið að sér þetta hlutverk. „Rakel var víst varamarkmaður Reading þegar hún var þar og ég trúi ekki öðru en að það hafi verið góð ástæða fyrir því. Þær voru bara með einn markmann og Rakel var að spila en ef eitthvað hefði komið upp á hjá henni hefði hún leyst stöðuna,“ sagði Munda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert