Hefur angrað mig að skora ekki meira

Kyle McLagan, lengst til vinstri, í leiknum í kvöld.
Kyle McLagan, lengst til vinstri, í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta eru vonbrigði,“ sagði Kyle McLangan, bandarískur miðvörður Víkings úr Reykjavík, í samtali við mbl.is eftir 2:2-jafntefli gegn Val á heimavelli í kvöld. Víkingur komst í 2:0 en Valur svaraði með tveimur mörkum og liðin skiptu með sér stigunum.

„Þetta var baráttuleikur og eflaust skemmtilegur á að horfa. Lappirnar á okkur voru orðnar þungar eftir erfiðar síðustu vikur. Við þurfum að vera þéttari baka til og hætta að gera mistök í vörninni. Við getum ekki fengið á okkur tvö mörk í leik og heilt yfir eru þetta vonbrigði,“ bætti hann við.

Vegna meiðsla spiluðu miðjumennirnir Viktor Örlygur Andrason og Pablo Punyed í varnarlínu Víkings í kvöld og miðvörðurinn McLagan lék sem bakvörður. „Ég spilaði sem hægri bakvörður í 65 mínútur en færði mig svo í miðvörðinn. Það er hægt að leita að afsökunum en við þurfum að ná í sigra, líka þegar það vantar leikmenn. Annars vinnurðu ekki deildina. Það voru tveir miðjumenn að spila á miðsvæðinu, en við þurfum að vinna leiki,“ benti hann á.

Það hefur verið nóg að gera hjá Víkingsliðinu síðustu vikur, eftir að hafa leikið tíu Evrópuleiki, meðfram deildar- og bikarleikjum á síðustu vikum. McLagan kann þó vel við álagið, enda skemmtilegra að spila en að æfa.

„Þetta hefur verið í lagi fyrir mig, þótt lappirnar hafi verið þungar í kvöld. Það eru margir leikmenn að glíma við einhver meiðsli og það hefur lítill tími gefst til að jafna sig. Það eru deildir þar sem er spilað tvisvar í viku allar vikur og ég er bara ánægður að fá leiki.“

McLagan kom Víkingi í 2:0 í fyrri hálfleik með sínu fyrsta marki í efstu deild. Hann vill skora meira, þrátt fyrir að vera miðvörður.

„Það er rétt. Ég skoraði í Meistaradeildinni. Það hefur angrað mig að skora ekki meira. Ég hef fengið færi á móti Breiðabliki, Fram og Stjörnunni og náði ekki að nýta þau. Það var gaman að skora en ég vil skora meira. Ég vil vera hættulegri í föstum leikatriðum. Ég var hættulegur í öllum hornum í fyrra en núna þarf ég að finna taktinn fyrir framan markið.“

Víkingur er tíu stigum á eftir toppliði Breiðabliks og með leik til góða. McLagan segir enn allt opið í toppbaráttunni. „Ef við verðum þokkalega nálægt þeim þegar fimm leikir eru eftir getur allt gerst. Fjögur jafntefli í röð eru ekkert spes, en við erum allavega ekki að tapa. Ég hef áfram trú á þessu hjá okkur og loksins fáum við venjulega viku til að æfa og leikmenn fá að jafna sig á meiðslum.“

Þar sem komið er haust var mikið myrkur í Víkinni undir lok leiks. McLagan kann vel við að spila á flóðlýstum Víkingsvellinum. „Ég nýt þess að spila undir ljósunum, ég hef gert það allt mitt líf. Það er bara á Íslandi sem ég spila ekki í myrkri og flóðljósum. Ég elska að spila undir ljósunum í Víkinni og ég naut þess í kvöld,“ sagði sá bandaríski.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert